Háskólasetur Vestfjarða 20 ára – Peter Weiss lætur af störfum

Frá aðalfundi Háskólastursins. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Á föstudaginn var haldið upp á 20 ára afmæli Háskólasetur Vestfjarða. Fulltrúaráð Háskólasetursins kom saman í Vestrahúsinu og hélt aðalfund. Þá voru veglegar veitingar, kvennakór Ísafjarðar söng og Vestfjarðastofa stóð fyrir málstofu um uppbyggingu þekkingar í fjórðungnum. Þar var velt upp spurningunni hvað væri næst í uppbyggingu þekkingar.

Mikið fjölmenni var samankomið í Háskólasetrinu til að fagna þessum tímamótum.

Kvennakór Ísafjarðar var undir stjórn Rúnu Esradóttur.

Málstofa Vestfjarðastofu um uppbyggingu þekkingar. Gylfi Ólafsson, formaður Fjórðungssambands Vestfjarða stjórnaði umræðum. Á myndinni má sjá Gauta Geirsson, Háafelli, Dóróteu Hreinsdóttur, M.Í., Guðmund Fertram Sigurjónsson, Kerecis, Margréti Jónsdóttur Bifröst og Ragnheiði I. Þórarinsdóttir, Landbúnaðarháskóla Íslands.

Peter Weiss lætur af störfum í haust

Á aðalsfundinum tilkynnti Peter Weiss, forstöðumaður Háskólasetursins frá upphafi að hann hygðist láta af störfum í haust. Eftir tuttugu ára starf fyndist honum komi tími til að breyta til. Í ávarpi sínu sagði Peter m.a.

„Ég tel mig hafa gefið Háskólasetri það sem ég er bestur í: Trú á framtíðina, að greina möguleika, vera skýr í stefnumótun, agaður í fjárhagsmálum, koma nýrri stofnun vel af stað og vinna henni traust. Háskólasetur Vestfjarða nýtur góðs af miklum stöðugleika, mikilli festu, í stjórn og hjá starfsfólki. En það þarf líka endurnýjun. Nú er tími kominn að aðrir taki við.“ og lauk máli sínu með því að segja „Ég er óendanlega þakklátur fyrir að mild örlög hafa skolað mér á einmitt þessa strönd, þar sem mér var treyst fyrir Háskólasetri Vestfjarða í heil tuttugu ár.“

Vestfirðingar á vængjum vona

Vonin er góður árbítur en vondur kvöldskattur sagði Francis Bacon – það hafa þeir örugglega reynt sem búa við örbirgð.

Stundum er vonin eina haldreipið þegar á móti blæs en hún er ekki lausn – hún er hugarástand – friðþæging hugans í erfiðum aðstæðum.

Sagt er að þeir sem lengi hafa þurft að bíða verði litlu fegnir á endanum – svo mögulega er íslensk biðlistamenning úthugsað sálfræðitrikk ráðalausra stjórnmálamanna.

En kannski hefur vonin haldið lífinu í landsbyggðinni sem svo lengi hefur átt undir högg að sækja eða allt frá því hún var svipt lífsviðurværi sínu með ólögum.

Einhverjir vonuðu að olíuhreinsistöð gæti komið í stað sjávarútvegs á Vestfjörðum – aðrir vonuðu að vaxandi ferðamannaiðnaður væri lausnin til framtíðar og um þessar mundir vona sumir að laxeldi í hvern fjörð muni leysa vandann – já, og enn aðrir vona að ef fleiri fallvötn verði virkjuð þá muni það laða að stórhuga framkvæmdamenn með heiðarlegar fyrirætlanir vestfirðingum til framdráttar og heilla og ekki má gleyma von allra vestfirðinga um bættar samgöngur og örugglega óhætt að segja að þeir sameinist í von um að ríkisstyrkta flugfélagið okkar eina og sanna á fákeppnismarkaði hætti við að hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar. En þar sem vonin ein og sér er ekki líkleg til árangurs þá þurfum við að minna flugrekstraraðila á það sem kallast samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja – ekki síst þeirra sem notið hafa ríkisstyrkja – en eiga samt alltaf afgang þegar kemur að arðgreiðslum til hluthafa.

Ekki veit ég hvaða aðferðafræði er notuð við að reikna út fargjöld og þætti mér fróðlegt að fá útskýringar í þeim efnum –  því sama dag og flugfélagið tilkynnti fyrirætlanir sínar með þeirri skýringu að flug til Ísafjarðar myndi ekki vegna fyrirsjáanlegra breytinga á flugflota lengur þjóna hagsmunum félagsins rakst ég á auglýsingu þar sem boðið var upp á flug til Tene fyrir 10.000 kr – og þá rifjaðist upp fyrir mér að ég hafi fyrir rúmum tveimur árum greitt 70.000 kr fyrir flug milli Ísafjarðar og Reykjavíkur – aðra leið. Það er freistandi að ætla að innanlandsflugið á fákeppnismarkaði sé látið greiða niður millilandaflugið sem er í samkeppni við önnur flugfélög.

Góðar samgöngur skipta gríðalega miklu máli á landsbyggðinni þar sem öll þjónusta er orðin afar bágborin víðast hvar og því oft um langan veg að fara til að sækja hana – dæmi eru um að aka þurfi daglega um 200 km með börn í skóla – svona til samanburðar þá eru 454 km milli Reykjavíkur og Ísafjarðar ef farin er Djúpleiðin. Svona nokkuð er eiginlega óásættanlegt.

Einhverjir kunna að líta svo á að það sé sóun á fjármunum að viðhalda landsbyggðinni – en hamfarirnar á Reykjanesi ættu að sýna okkur að það er ekki skynsamlegt að tjalda öllu til á sama stað og stríðsógnir nú um stundir ættu að vekja okkur til umhugsunar um fæðuöryggi og sjálfbærni – en í þeim efnum myndi landsbyggðin gegna lykilhlutverki. Við þurfum líka að hafa í huga að það getur komið að því einn daginn að togveiðar verði bannaðar á heimsvísu sem og uppsjávarveiðar vegna ofveiði í áratugi með aðferðum sem skaða lífríki sjávar – komi til þess verður gott að geta treyst á umhverfisvænar strandveiðar. Það þarf að hugsa til framtíðar – stundargróðrarhyggjan þarf að víkja fyrir skynseminni – enda hlýtur hún alltaf að vera með heillavænlegustu lausnirnar.

Landsbyggðin er háðari samgöngum nú en þegar allt til daglegra þarfa var í nærumhverfi – hér áður fyrr gat fólk líka frekar treyst á hvort annað en nú á dögum sérhyggju.

Þegar ég var að alast upp á Flateyri þá voru allir í því litla samfélagi meðvitaðir um hverjir væru liðtækir og við hvað – allir skiptu máli og enginn skoraðist undan samfélagslegri ábyrgð sama hvar í stétt þeir stóðu. Lína á Básum sem var fötluð tók til dæmis stundum að sér að aðstoða börn sem áttu erfitt með lestur og það hefur að líkindum örlítið drýkt tekjur hennar – en svo var skólastjórinn kallaður til þegar óhöpp áttu sér stað þegar svo bar undir að læknislaust var – hann gat veitt fyrstu hjálp og ég held hann hafa meira að segja einnig tekið á móti barni við erfiðar aðstæður – já, og jafnvel fleirum.

Ég var orðin nokkuð stálpuð þegar ég heyrði talað um fötlun – í mínum huga samanstóð litla samfélagið sem ég lifði og hrærðist í af fólki sem var misvel í stakk búið til að takast á við hlutina – sumir svolítið skrítnari en aðrir – en fólk gat treyst á hvort annað þrátt fyrir stöku væringar öðru hvoru.

Þetta var fyrir tíma sjúkdómavæðingar – þegar ekki þótti nauðsynlegt að allir væru steyptir í sama mót – áður en meðalmanneskjan var hönnuð – sem hvorki má vera of né van svo meðalmennskan fái notið sín.

Það er fleira en samgöngur og tryggt atvinnulíf sem samfélög út á landi þurfa að hafa í lagi –  það þarf líka að huga að orðsporinu – en það er dýrmætt hverju samfélagi sem vill laða til sín. Það eru ráðandi öfl á hverjum stað sem marka þau spor – hinir feta svo slóðina með fáum undantekningum. Það er ekki nóg að vona að orðsporið sé gott – það þarf að vinna að því að heilindum.

Íslendingar kannast allir við samsúrruð ættarveldi – það er ekki óalgengt að tvær til fjórar ættir ráði lögum og lofum í stærri samfélögum á landsbyggðinni. Þegar flæða fer svo undan þessum samfélögum og þau að flosna upp þá verða þessar ættir meira áberandi og valdameiri og smá saman fara þær að miða allt við eigin þarfir og væntingar þó þær gangi í berhögg við hagsmuni heildarinnar. Þetta er ávísun á stöðnun sem varað getur í áratugi því sjálftekið ættarvaldið erfist gjarnan milli kynslóða – ættarsprotarnir snúa aftur að námi loknu fjarri heimabyggð í öryggi ættarhreiðranna – þar bíða svo frátekin störf eða embætti. Svona „hefðir “ geta staðið samfélögum fyrir þrifum ef aðhaldið er ekkert.

Um þetta er auðvitað ekkert rætt opinberlega – en vissulega við eldhúsborðin.

Það mun sennilega seint takast að uppræta þrælslund íslendinga. Meðfædd þrælslundin hefur komið í veg fyrir að íslendingar hafi getað sameinast gegn hvers konar ofríki – það hafa alltaf verið einhverjir sem hafa verið falir og þá er sundrungin vís – í skjóli hennar hefur ofríkið svo getað athafnað sig.

Það er þekkt aðferð pólutíkusa að búa til þrætuepli að fleygja fyrir lýðinn að bítast um svo þeir geti í friði unnið að því sem þeim finnst meira aðkallandi – eins og til dæmis helmingaskipti og kvótakerfi og nú er talað um að leiðtogar stórveldana  hafi verið að skipta með sér norðurslóðum í spekt á meðan athygli annarra leiðtoga var öll á Úkraínustríðinu – þetta þætti mér efasemdamanneskjunni ekki ótrúlegt.

Íslensk stjórnvöld hafa alltaf verið mjög höll undir þau bandarísku og verið ötul við að tileinka sér þeirra frjálshyggjutakta – enda stjórnarfarið á Íslandi líkara því bandaríska en norræna velferðarmódelinu sem við svo oft berum okkur saman við og almenningur vill fylgja. Það er í raun fátt á Íslandi sem minnir á norræna velferð – Ísland sem er ein ríkasta þjóð í heimi hefur ekki lengur efni á að viðhalda lágmarks velferðarþjónustu því auðlindir þjóðarinnar hafa verið einkavæddar. Ein mikilvægasta stoð samfélagsins heilbrigðiskerfið hefur einnig verið einkavætt að ég tel þó annað sé látið í veðri vaka. Mér er nær að halda að læknastéttin hafi verið að einkavæða það hægt og hljótt bakdyramegin – að líkindum með blessun stjórnvalda. Nú er svo komið að það fást varla læknar til starfa út á landi nema sem verktakar – þeir geta sem sjálfstætt starfandi farið á milli stofnana út á landi og gengið þar inn á þokkalega búnar stofnanir með hlustapípurnar sínar í vasanum. Hvað er það annað en dulbúin einkavæðing þegar nánast öll starfsemi inn á stofnunum er aðkeypta verktakaþjónusta – en heilbrigðiskerfið er ekki bara að kaupa verktakaþjónustu af læknastéttinni. Heilbrigðiskerfið er eiginlega að verða eins og ríkisstyrktur einkarekstur.

Ég er ekki bjartsýn á að landsbyggðin verði endurreist nema sem einhvers konar bækistöð erlendra auðhringa. Ég held að við sem þjóð höfum fyrir löngu glatað lýðræðisvaldi okkar. við höfum verið blekkt – það hefur verið pukrað með hlutina bak við tjöldin og einkavætt grimmt gegn vitund og vilja almennings. Við vitum heldur ekki hversu mikið er búið að selja af landinu til erlendra auðmanna með óljós áform – við vitum heldur ekki hvort erlendir aðilar hafi komist yfir nýtingarrétt til sjávar í gegnum eignaflækjur í sjávarútvegi – við vitum heldur ekki upp á hvað nýjustu samningar við Bandaríkin hljóða og við vissum heldur ekki af hernaðarbrölti þeirra á Suðurnesjum nú fyrr en löngu eftir að það hófst – sem undirstrikar virðingarleysi ráðamanna gagnvart þjóðinni og hversu sjálfsagt og eðlilegt þeim þykir að vaða yfir hana.

Við erum illa upplýst þjóð sem lengi hefur vonað að hlustað verði eftir vilja hennar – ég held að það sé borin von að það verði nokkru sinni gert. Manneskjan er hætt að skipta máli – mennskan er að glatast – það ströglar bara hver í sínu horni – manneskjurnar eru bara hlekkir í virðiskeðju auðvaldsins sem skipta má út eftir þörfum.

Öryggisnet þess velferðarkerfis sem þjóðin eitt sinn byggði upp er ekki lengur til – frjálshyggjan með sína einkavæðingadrauma og gróðrarvonir hefur rifið það niður – almenningur því varnarlaus þegar mest liggur við.

Það getur verið erfitt að halda í vonina þegar svona er komið.

                                                                          Þeir vita það best, hvað vetur er,

                                                                          sem vorinu heitast unna.

                                                                                                 Davíð Stefánsson 

Lifið heil !

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

Sósíalisti og lífsreyndur eldri borgari.

Minning: Guðmundur Steinarr Gunnarsson

F. 14. maí 1933 – d. 14. febrúar 2025.

Guðmundur var upprunninn í hinum víðáttumikla og grösuga Valþjófsdal í Önundarfirði. Frá náttúrunnar hendi er dalurinn fögur og blómleg byggð og hefur ræktun góðbænda aukið enn við prýði hans og nytjar.

Ungur var hann nemandi síra Eiríks J. Eiríkssonar, skólastjóra á Núpi. Fullorðinn var hann einn brautryðjenda í vestfirskri vegagerð. Hann vann lengi undir stjórn Lýðs Jónssonar, en varð seinna héraðs- og rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Vestfjörðum. Hann aflaði sér flugmannsréttinda og var þaulkunnugur flugvöllunum í héraðinu. Hann velti því fyrir sér, hvort flugvöllur á Sveinseyrarodda í Dýrafirði gæti komið íbúum á norðanverðum Vestfjörðum til góða, bæði í innan- og utanlandsflugi.

Guðmundur var bókamaður, vel máli farinn og áhugasamur um íslenska tungu. Ósjaldan færði hann í tal, hve mjög málfæri landa okkar væri tekið að hraka – og hann gat hlegið dátt að rollu eins og þessari, þótt undir niðri tregaði hann meðferðina á móðurmálinu:

„Heilt yfir hljóta jú lausnamiðaðir einstaklingar auðvitað líkt og að fókusera á þær gríðarlegu áskoranir, sem koma á þeirra borð á í-meilnum gagnvart innviðunum, sem eru jú auðvitað á pari við nýja vínkilinn á einni sviðsmyndinni í stóra samhenginu. En þá er bara ekki tekið mark á’ussu og ekkert hlustað á’etta, heldur er umræðan tekin á breiðum grundvelli hægri vinstri, eins og enginn sé morgundagurinn – við aðila sem á þessum level eru útsettir fyrir smit, en eru samt ekki að fatta mikilvægi sóttkvís, basically, svo það sé sagt, þú veist …“

Djúpt í hugarfylgsnum hans djarfaði fyrir þeim grun, að hann væri að langfeðgatali kominn af húgenottum, en svo nefndust franskir mótmælendur, kalvínstrúar, sem ofsóttir voru eftir að Loðvík 14. komst til valda í Frakklandi. Árið 1685 svipti konungur þá öllum réttindum og flýðu þeir þá til nálægra landa.  Einn forfeðra Guðmundar hét Jens Viborg. Og nokkuð var það, að Guðmundur var ekki ólíkur sumum fransmönnum í útliti: svarthærður, dökkur á hörund og brúneygður.  

Guðmundur var kvæntur manna best. Geira var einstök kona að manngæðum, glaðlynd, góðviljuð og vinföst, trúuð og kirkjurækin, vissi, að máttur bænarinnar er mikill og hún lýsti því einatt, hversu hún hefði hlotið blessun í guðsþjónustunni. Hún las oft í Biblíunni, sálmabókinni og Passíusálmunum og lét uppbyggjast af heilögu orði.

Við verðum alla ævi þakklát fyrir það, hve annt þau hjónin létu sér um okkur allt frá fyrstu dögunum vestra. Þegar leiðir allar heim til okkar voru á kafi í fönn, misjafnra veðra von og Hvilftarströndin stórvarasöm sakir flóðahættu, hringdi síminn og það var þá Guðmundur að bjóðast til þess að koma með til okkar, ef okkur vantaði úr búðinni hjá Laufeyju á Flateyri.

Þegar heilsu konu hans tók að hraka, komu í ljós nýjar hliðar á Guðmundi. Erfitt er að hugsa sér meiri ástúð og natni en hann sýndi Geiru síðustu árin. Hann sá um innkaupin, þreif, eldaði og bakaði meira að segja; snerist í kringum konu sína og hlúði að henni á alla lund.

Með miklum söknuði, þökk og bæn um blessun Guðs kveðjum við elskulegan tryggðavin. Við biðjum Guð um frið yfir legstað hans, og um blessun yfir endurfundi hans við ástvinina, sem á undan honum eru farnir af þessum heimi. Við felum Guðmund Steinar Gunnarsson orði Guðs náðar. Guð blessi hann og ástvini hans alla, bæði þessa heims og annars.

Gunnar Björnsson
pastor emeritus.

 pastor emeritus.

Reykjavíkurborg: trjáfellingar í Öskjuhlíð ekki í þágu borgarbúa

Fulltrúar meirihlutaflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkurborgar í umhverfis- og skipulagsráði samþykktu í vikunni aðgerðaráætlun um trjáfellingar í Öskjuhlíðinni í þágu flugöryggis.

Bókað var að fallist væri á áætlunina um fellingu trjáa en áréttað skógurinn í Öskjuhlíð væri mikilvægt upplifunar- og útivistarsvæði fyrir borgarbúa. Telur meirihlutinn eðlilegt að ríkið standi straum af kostnaði við trjáfellinguna sem sé ekki í þágu borgarbúa.

Gufudalssveit: brúin í Djúpafirði ekki boðin út

Í gær tilkynnti Vegagerðin um útboð á byggingu tveggja steyptra brúa á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit. Annars vegar er um að ræða 58 m langa brú á Djúpafjörð við Grónes og hins vegar um 130 m langa brú á Gufufjörð. Innifalið í verkinu er rif á núverandi 119 m bráðabirgðabrú á Gufufirði ásamt efnisflutningum úr núverandi vinnuplönum og gerð grjótvarnar/rofvarnar. Verkinu skal að fullu lokið 30. september 2026.

En ekki er ekki allt komið í útboð. Bæjarins besta fékk staðfest í gær hjá Vegagerðinni að það á eftir að bjóða út eina brú í Djúpafirði, sem er 240 m, og verður stálbogabrú í einu hafi.

Í svari Vegagerðarinnar segir að vonandi fari hún í útboð fyrir lok ársins.   

Utanríkisráðherra heimsækir Vestfirði

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra mun dagana 17. til 19. mars sækja Vestfirði heim þar sem hún hyggst efna til samtals við íbúa um utanríkisþjónustuna og hvernig hún þjónar hagsmunum Íslands, bæði heima og erlendis. Komið verður upp tímabundnum starfsstöðvum utanríkisráðherra á Ísafirði og Patreksfirði þar sem íbúar geta sótt opna viðtalstíma og þá verður haldinn opinn fundur á Ísafirði. Þá hyggst ráðherra einnig heimsækja fyrirtæki og kynna sér starfsemi í byggðum Vestfjarða.

Um er að ræða fyrsta viðkomustað utanríkisráðherra í fyrirhugaðri ferðaröð hennar um landið en ætlunin er að ferðast reglulega út á land á næstu mánuðum og koma upp tímabundnum skrifstofum utanríkisráðuneytisins vítt og breitt. Með því vill utanríkisráðherra færa samtalið um utanríkismál nær fólkinu í landinu og gera grein fyrir því hvernig utanríkisþjónustan beitir sér daglega á alþjóðavettvangi í þágu heimilanna, neytenda og fyrirtækja um land allt.

„Eitt af því fyrsta sem ég einsetti mér að gera þegar ég tók við embætti utanríkisráðherra var að skipuleggja ferðaröð um landið til að færa þetta gríðarlega mikilvæga samtal nær þjóðinni allri og draga fram af hverju utanríkisþjónustan er mikilvæg fyrir fólkið okkar í landinu,“ segir Þorgerður Katrín. „Mig langar til að ræða hvernig alþjóðasamstarf hefur áhrif á daglegt líf okkar allra og hvernig við í utanríkisþjónustunni beitum okkur á hverjum degi fyrir bættu og öruggara samfélagi þjóða með mannréttindi allra að leiðarljósi. Ég hlakka mikið til samtalsins við vini mína á Vestfjörðum.“

Boðið verður upp á opna viðtalstíma á Ísafirði og Patreksfirði og þá fer fram opinn kvöldfundur á Ísafirði. Tímasetningar eru sem segir:

  • Opinn viðtalstími í Vestfjarðastofu – mánudaginn 17. mars kl. 16.00-18.00
  • Opinn fundur á Dokkunni á Ísafirði – mánudaginn 17. mars kl. 20.00
  • Opinn viðtalstími á bæjarskrifstofu Vesturbyggðar – þriðjudaginn 18. mars kl. 16.00-18.00

Vestfirskir listamenn: Gunnar M. Magnúss

F. 2. desember 1898 á Flateyri. D. 24. mars 1988.

Öndvegisverk: Virkið í norðri I – III, 1947 – 1950, Skáldið á Þröm, 1956, Í Múrnum, 1964.

Mörg vitum við að hið vestfirska vatn er einstaklega ferskt, holt og gott ef þú fáir ekki bara einhvern einstakan kraft úr þessum vinsæla drukk. Jafnvel sköpunarkraft. Það má alveg heimfæra það uppá hinn vestfirska listamann Gunnar M. Magnúss er ritaði nærri eitt hundrað bækur. Það var þó eigi hans eini starfi enda er það oft fyrsta spurning til listamanna, en við hvað vinnur þú hvaðan færðu monninginn? Gunnar starfaði lengi sem kennari og svo var hann gífurlega velvirkur í félagsmálum listamanna. Það má því vel minnast þessa skapandi vestfirska listamanns með nokkrum orðum.

Skildvindutónar

Gunnar fæddist á Flateyri hvar hann bjó fyrstu 10 æviárin er fjölskyldan tók sig upp en þó eigi lengra en í næsta fjörð á Suðureyri við Súgandafjörð. Einsog velvirkur höfundi sæmir þá ritaði hann vitanlega bók um þessi æskuár sín sem vel má mæla með að fólk kikki á. Bókin nefnist Þrepin þrettán enda fjallar hún um hans fyrstu 13 æviár. Þarna má m.a. lesa um norska hvalveiðiævintýrið á Flateyri og svo er þarna kostulegur þáttur af skemmtun á Suðureyri hvar hinn merki en alltof lítið um talaði listamaður Ingimundur er auknefndur var fiðla fór á kostum. Svo vildi til að skömmu fyrir skemmtun Ingimundar hafði komið mikil græja í fjörðinn, skilvinda mikið undratæki er skildi rjómann úr mjólkinni svo úr varð svalandi undanrenna. Það lá við að þakið dytti af leikhúsinu er listamaðurinn byrjaði að leika á fiðlu sína og framkvæma sömu hljoð og komu úr undratækinu ekki nóg með það heldur mátti heyra hljóðin í fjarlægð sem nálægð líkt og mónó og stereó.

Svo fór Gunnar einsog sumir suður hvar hann brautskráðist sem kennari 1927 og bætti svo við sig kennaraþekkingu við Kaupmannahafnar kennaraskóla. Lengst af kenndi hann við Austurbæjarskóla eða frá 1930 til 1947. Í áratug sat hann í stjórn Kennarasambands Íslands auk þess að sitja í stjórnum fjölmargra listafélaga má þar nefna Rithöfundafélags Íslands og svo var hann formaður Félags leikskálda í sex ár. Eftir því sem á leið jukust hans skrif eigi voru það bara bækur heldur ritstýrði hann tímaritunum Útvarpstíðindum, Íþróttablaðinu, Menntamálum og ásamt Aðalsteini Sigmundssyni stýrði hann barnaritinu Sunnu. Hann var meira að segja bóksali í ein sex ár um miðja liðnu öld. Þá má ekki gleyma hans ötulu og sönnu baráttu fyrir friði hér á landi. 1953 stofnaði hann samtökin Andspyrnuhreyfing gegn her í landi og var jafnframt formaður þess. Það starfaði reyndar ekki lengi er varð fyrirmynd af álíka þörfum félögum er eftir hafa komið. Er Ísland var hernumið hófst hann fljótlega handa við að rita um óefnið og útkoman var bókverkið Virkið í norðri er kom út skömmu eftir seinni heimstyrjaldarlok eða árið 1947. Heljarins mikið verk í þremur bindum er telur nærri eitt þúsund blaðsíður og er án efa eitt af hans öndvegisverkum. Árið 1964 ritaði hann síðan hið gagnmerka verk Árin sem aldrei gleymast. Ísland og heimstyrjöldin síðari.

Eiginkona Gunnars var Kristín Eiríksdóttir en hún andaðist 11. nóvember 1970.

Allt frá barnabókum til blikksagna

Ef maður hefur ritað nærri hundrað bækur hefur án efa margt verið um þau verk rituð og þá í átt til gaggarýni. Vissulega er það allt breytilegt sumir fíla Sjálfstætt fólk meðan atriðir ná ekki einu sinni að ljúka lestri verksins. Göggum þó eigi meir um þetta en leyfum okkur þó að grípa til orðs eins gaggarans er sagði að hann væri eigi eingrasa höfundur. Þar er lýsandi yfir fjölbreytileika skáldasveigs Gunnars. Fyrsta bók hans var Fiðrildi, smásagnasafn fyrir börn, er kom út 1928. Eftir það átti hann eftir að senda frá sér margar barnabækur þar sem ósjaldan komu fyrir ævintýri barnananna í Víðigerði. Áður gátum við sögubóka hans um hernámið all margar fleiri sögubækur komu úr hans ranni nægir þar að nefna Byrðingar er fjallaði um skipasmíði einnig ritaði hann sögu Blikksmiða hér á landi.

Þá er að geta hans merku ævisagnaverka hvar fremst í flokki er án efa Skáldið á Þröm er fjallar um hina harmþrungnu ævi skáldsins Magnúsar Hj. Magnússonar sem er fyrirmyndin Ljósvíkingi Halldórs Laxness í Heimsljósi. Víst var Magnús Gunnari hugleikinn því árið 1983 stóð hann fyrir því að reistur var sérstakur minnisvarði á Suðureyri á þeim stað er Magnús bjó og nefndi Þröm. Sagði að það væri þó eigi vegna þess að allt væri á heljarþröm, en næstum því. Það var hinn listhagi Súgfirðingur Guðmundur A. Guðnason er minnisvarðann gjörði.

Að síðustu er rétt að minnast dulítið á leikverk úr ranni Gunnars. Þeirra merkast er líklega Í múrnum sögulegt verk er gjörist í þá fangelsi þjóðarinnar sem er nú aðsetur ríkisstjórnar Íslands og nefnt Stjórnarráðshúsið. Leikurinn var fluttur í Ríkisútvarpinu 1964 þegar enn voru þar gerð útvarpsleikrit og sama ár kom leikritið út á bók. Fleiri leikverk ritaði hann til flutnings í landsútvarpinu má þar nefna Herrans hjörð sem er framhaldsleikverk um ævi skáldsins Hjálmars er kenndur var við Bólu.

Elfar Logi Hannesson

Heimildir:

Af Wikipediu

Gunnar M. Magnúss. Þrepin þrettán, 1978.

Morgunblaðið 2. 9. 1983.

Réttur 1 hefti 1988.

Skáldatal: Íslenskir barna- og unglingabókahöfundar. Elísabet Þórðardóttir, Guðríður Gísladóttir, Ingibjörg Sæmundsdóttir. Lindin, 1992.

Ráðleggingar um mataræði

Embætti landlæknis birti í gær endurskoðaða útgáfu opinberra ráðlegginga um mataræði fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri. Faghópur á vegum embættisins vann að gerð ráðlegginganna sem byggja á bestu vísindalegu þekkingu á sambandi mataræðis og heilsu en einnig er tekið tillit til matarvenja þjóðarinnar. Aukin áhersla er nú lögð á grænmeti, ávexti og heilkornavörur.

Ráðleggingar um mataræði voru fyrst gefnar út á Íslandi árið 1986 en síðan þá hafa þær verið endurskoðaðar fjórum sinnum. Þessi endurskoðun fylgir ávallt í kjölfar uppfærslu á Norrænum næringarráðleggingum þar sem hópur sérfræðinga fer kerfisbundið yfir rannsóknir á sviði næringar og heilsu.

Í nýjum ráðleggingum er aukin áhersla á grænmeti, ávexti og heilkornavörur. Nýmæli er umfjöllun um orkudrykki sem ekki voru algengir á markaði síðast þegar ráðleggingarnar komu út. Ráðleggingar embættisins í þeim efnum eru skýrar; orkudrykkir eru ekki ætlaðir börnum og ungmennum undir 18 ára.

Minna er ráðlagt af rauðu kjöti en áður og áfram er varað sérstaklega við neyslu unninna kjötvara (s.s. pylsur, bjúgu, naggar, beikon o.s.frv.), hvoru tveggja vegna aukinnar krabbameinsáhættu. Einnig er ráðlagt að takmarka neyslu á matvælum sem innihalda mikið af fitu, salti og sykri og að forðast áfengi, meðal annars vegna krabbameinsvaldandi áhrifa.

Nýju ráðleggingarnar leggja höfuðáherslu á eftirfarandi þætti:

  • Njótum fjölbreyttrar fæðu með áherslu á mat úr jurtaríkinu
  • Veljum grænmeti, ávexti og ber oft á dag
  • Veljum heilkorn, helst þrjá skammta á dag
  • Veljum fisk, baunir og linsur oftar en rautt kjöt – takmörkum neyslu á unnum kjötvörum
  • Veljum ósætar og fituminni mjólkurvörur daglega
  • Veljum fjölbreytta og mjúka fitugjafa
  • Takmörkum neyslu á sælgæti, snakki, kökum, kexi og sætum drykkjum
  • Minnkum saltið – notum fjölbreytt krydd
  • Veljum vatn umfram aðra drykki
  • Forðumst áfengi – engin örugg mörk eru til
  • Tökum D-vítamín sem bætiefni daglega

Íbúar landsins voru 389.444 í byrjun ársins segir Hagstofan

Mannfjöldi á Íslandi var 389.444 þann 1. janúar 2025 samkvæmt nýju mati Hagstofu Íslands og hafði íbúum fjölgað um 5.718 frá 1. janúar 2024 eða um 1,5%. Alls voru 199.622 karlar, 189.623 konur og 199 kynsegin/annað búsett á landinu í upphafi ársins og fjölgaði körlum um 1,6% frá fyrra ári, konum um 1,4% og kynsegin/öðru um 25,2%.


Á undanförnum áratugum hefur aldurssamsetning landsmanna breyst töluvert. Almennt má segja að börnum hafi fækkað hlutfallslega en eldra fólki fjölgað. Framfærsluhlutfall er annars vegar reiknað sem hlutfall aldraðra (65+) af fólki á vinnualdri 20–64 ára og hins vegar sem hlutfall barna og ungmenna (0–19 ára) af sama hópi. Á síðastliðnum tíu árum hefur hlutfall fólks á aldrinum 0–19 ára lækkað úr 46,6% í 40,7% af fólki á vinnualdri en hlutfall aldraðra (65+) aukist úr 23,3% í 26,5% og hefur aldrei verið hærra.

Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 4.877 fleiri þann 1. janúar 2025 en fyrir ári. Það jafngildir 2,0% fjölgun íbúa á einu ári. Hlutfallsleg fólksfjölgun var mest á Suðurlandi þar sem fjölgaði um 3,5% á síðasta ári og á Vesturlandi en þar var fjölgunin 2,0% milli ára. Í öðrum landshlutum var fólksfjölgun undir landsmeðaltali. Á Norðurlandi eystra fjölgaði um 1,4%, á Austurlandi fjölgaði um 1,2%, á Norðurlandi vestra um 0,8% og á Vestfjörðum um 0,1%. Hins vegar fækkaði íbúum á Suðurnesjum um 4,4% og skýrist sú fækkun aðallega af flutningum frá Grindavík á árinu 2024.

Íbúum fækkaði í 9 af 62 sveitarfélögum
Sveitarfélög á Íslandi voru alls 62 þann 1. janúar 2025 og hafði þeim fækkað um tvö frá fyrra ári. Reykjavík var fjölmennasta sveitarfélagið með 138.772 íbúa en Tjörneshreppur fámennasta sveitarfélagið með 53. Alls höfðu 27 sveitarfélög færri en 1.000 íbúa, þar af fjögur með færri en 100 íbúa. Í ellefu sveitarfélögum voru 5.000 íbúar eða fleiri.

Í fyrra fækkaði íbúum í 9 af 62 sveitarfélögum landsins. Mest var fækkunin í Grindavíkurbæ en þar fækkaði um 2.333 íbúa og nam fækkunin 65% milli ára. Af ellefu stærstu sveitarfélögunum, með 5.000 íbúa eða fleiri, fjölgaði hlutfallslega mest í Garðabæ eða um 5,4% og í Sveitarfélaginu Árborg um 4,3%. Í Reykjavíkurborg var fjölgunin undir landsmeðaltali eða 1,4%. Af ellefu stærstu sveitarfélögunum fjölgaði minnst í Múlaþingi eða um 1,1% og næstminnst í Akureyrarbæ um 1,2%.

Sólrisuleikrit MÍ er Grease

Sólrisuleikrit Menntaskólans á Ísafirði er ein af þessum gömlu og góðu hefðum skólans.

Í ár varð hinn vinsæli söngleikur Grease fyrir valinu hjá leikfélaginu. Öll sem koma að leiksýningunni hafa lagt hart að sér síðustu vikurnar og eru þau mjög spennt að sýna bæjarbúum afraksturinn.

Frumsýning verður 22.mars kl. 20:00 og er sýnt í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Leikstjóri er Birgitta Birgisdóttir.

Sýningar verða tíu og er miðasala á tix.is

Frumsýning – 22.03 kl 20:00
sýning 2 – 23.03 kl 16:00
sýning 3 – 23.03 kl 20:00
sýning 4 – 25.03 kl 20:00
sýning 5 – 26.03 kl 20:00
sýning 6 – 27.03 kl 20:00
sýning 7 – 28.03 kl 20:00
sýning 8 – 29.03 kl 20:00
sýning 9 – 30.03 kl 16:00
sýning 10 – 30.03 kl 20:00

Nýjustu fréttir