Í gær tilkynnti Vegagerðin um útboð á byggingu tveggja steyptra brúa á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit. Annars vegar er um að ræða 58 m langa brú á Djúpafjörð við Grónes og hins vegar um 130 m langa brú á Gufufjörð. Innifalið í verkinu er rif á núverandi 119 m bráðabirgðabrú á Gufufirði ásamt efnisflutningum úr núverandi vinnuplönum og gerð grjótvarnar/rofvarnar. Verkinu skal að fullu lokið 30. september 2026.
En ekki er ekki allt komið í útboð. Bæjarins besta fékk staðfest í gær hjá Vegagerðinni að það á eftir að bjóða út eina brú í Djúpafirði, sem er 240 m, og verður stálbogabrú í einu hafi.
Í svari Vegagerðarinnar segir að vonandi fari hún í útboð fyrir lok ársins.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra mun dagana 17. til 19. mars sækja Vestfirði heim þar sem hún hyggst efna til samtals við íbúa um utanríkisþjónustuna og hvernig hún þjónar hagsmunum Íslands, bæði heima og erlendis. Komið verður upp tímabundnum starfsstöðvum utanríkisráðherra á Ísafirði og Patreksfirði þar sem íbúar geta sótt opna viðtalstíma og þá verður haldinn opinn fundur á Ísafirði. Þá hyggst ráðherra einnig heimsækja fyrirtæki og kynna sér starfsemi í byggðum Vestfjarða.
Um er að ræða fyrsta viðkomustað utanríkisráðherra í fyrirhugaðri ferðaröð hennar um landið en ætlunin er að ferðast reglulega út á land á næstu mánuðum og koma upp tímabundnum skrifstofum utanríkisráðuneytisins vítt og breitt. Með því vill utanríkisráðherra færa samtalið um utanríkismál nær fólkinu í landinu og gera grein fyrir því hvernig utanríkisþjónustan beitir sér daglega á alþjóðavettvangi í þágu heimilanna, neytenda og fyrirtækja um land allt.
„Eitt af því fyrsta sem ég einsetti mér að gera þegar ég tók við embætti utanríkisráðherra var að skipuleggja ferðaröð um landið til að færa þetta gríðarlega mikilvæga samtal nær þjóðinni allri og draga fram af hverju utanríkisþjónustan er mikilvæg fyrir fólkið okkar í landinu,“ segir Þorgerður Katrín. „Mig langar til að ræða hvernig alþjóðasamstarf hefur áhrif á daglegt líf okkar allra og hvernig við í utanríkisþjónustunni beitum okkur á hverjum degi fyrir bættu og öruggara samfélagi þjóða með mannréttindi allra að leiðarljósi. Ég hlakka mikið til samtalsins við vini mína á Vestfjörðum.“
Boðið verður upp á opna viðtalstíma á Ísafirði og Patreksfirði og þá fer fram opinn kvöldfundur á Ísafirði. Tímasetningar eru sem segir:
Opinn viðtalstími í Vestfjarðastofu – mánudaginn 17. mars kl. 16.00-18.00
Opinn fundur á Dokkunni á Ísafirði – mánudaginn 17. mars kl. 20.00
Opinn viðtalstími á bæjarskrifstofu Vesturbyggðar – þriðjudaginn 18. mars kl. 16.00-18.00
Öndvegisverk: Virkið í norðri I – III, 1947 – 1950, Skáldið á Þröm, 1956, Í Múrnum, 1964.
Mörg vitum við að hið vestfirska vatn er einstaklega ferskt, holt og gott ef þú fáir ekki bara einhvern einstakan kraft úr þessum vinsæla drukk. Jafnvel sköpunarkraft. Það má alveg heimfæra það uppá hinn vestfirska listamann Gunnar M. Magnúss er ritaði nærri eitt hundrað bækur. Það var þó eigi hans eini starfi enda er það oft fyrsta spurning til listamanna, en við hvað vinnur þú hvaðan færðu monninginn? Gunnar starfaði lengi sem kennari og svo var hann gífurlega velvirkur í félagsmálum listamanna. Það má því vel minnast þessa skapandi vestfirska listamanns með nokkrum orðum.
Skildvindutónar
Gunnar fæddist á Flateyri hvar hann bjó fyrstu 10 æviárin er fjölskyldan tók sig upp en þó eigi lengra en í næsta fjörð á Suðureyri við Súgandafjörð. Einsog velvirkur höfundi sæmir þá ritaði hann vitanlega bók um þessi æskuár sín sem vel má mæla með að fólk kikki á. Bókin nefnist Þrepin þrettán enda fjallar hún um hans fyrstu 13 æviár. Þarna má m.a. lesa um norska hvalveiðiævintýrið á Flateyri og svo er þarna kostulegur þáttur af skemmtun á Suðureyri hvar hinn merki en alltof lítið um talaði listamaður Ingimundur er auknefndur var fiðla fór á kostum. Svo vildi til að skömmu fyrir skemmtun Ingimundar hafði komið mikil græja í fjörðinn, skilvinda mikið undratæki er skildi rjómann úr mjólkinni svo úr varð svalandi undanrenna. Það lá við að þakið dytti af leikhúsinu er listamaðurinn byrjaði að leika á fiðlu sína og framkvæma sömu hljoð og komu úr undratækinu ekki nóg með það heldur mátti heyra hljóðin í fjarlægð sem nálægð líkt og mónó og stereó.
Svo fór Gunnar einsog sumir suður hvar hann brautskráðist sem kennari 1927 og bætti svo við sig kennaraþekkingu við Kaupmannahafnar kennaraskóla. Lengst af kenndi hann við Austurbæjarskóla eða frá 1930 til 1947. Í áratug sat hann í stjórn Kennarasambands Íslands auk þess að sitja í stjórnum fjölmargra listafélaga má þar nefna Rithöfundafélags Íslands og svo var hann formaður Félags leikskálda í sex ár. Eftir því sem á leið jukust hans skrif eigi voru það bara bækur heldur ritstýrði hann tímaritunum Útvarpstíðindum, Íþróttablaðinu, Menntamálum og ásamt Aðalsteini Sigmundssyni stýrði hann barnaritinu Sunnu. Hann var meira að segja bóksali í ein sex ár um miðja liðnu öld. Þá má ekki gleyma hans ötulu og sönnu baráttu fyrir friði hér á landi. 1953 stofnaði hann samtökin Andspyrnuhreyfing gegn her í landi og var jafnframt formaður þess. Það starfaði reyndar ekki lengi er varð fyrirmynd af álíka þörfum félögum er eftir hafa komið. Er Ísland var hernumið hófst hann fljótlega handa við að rita um óefnið og útkoman var bókverkið Virkið í norðri er kom út skömmu eftir seinni heimstyrjaldarlok eða árið 1947. Heljarins mikið verk í þremur bindum er telur nærri eitt þúsund blaðsíður og er án efa eitt af hans öndvegisverkum. Árið 1964 ritaði hann síðan hið gagnmerka verk Árin sem aldrei gleymast. Ísland og heimstyrjöldin síðari.
Eiginkona Gunnars var Kristín Eiríksdóttir en hún andaðist 11. nóvember 1970.
Allt frá barnabókum til blikksagna
Ef maður hefur ritað nærri hundrað bækur hefur án efa margt verið um þau verk rituð og þá í átt til gaggarýni. Vissulega er það allt breytilegt sumir fíla Sjálfstætt fólk meðan atriðir ná ekki einu sinni að ljúka lestri verksins. Göggum þó eigi meir um þetta en leyfum okkur þó að grípa til orðs eins gaggarans er sagði að hann væri eigi eingrasa höfundur. Þar er lýsandi yfir fjölbreytileika skáldasveigs Gunnars. Fyrsta bók hans var Fiðrildi, smásagnasafn fyrir börn, er kom út 1928. Eftir það átti hann eftir að senda frá sér margar barnabækur þar sem ósjaldan komu fyrir ævintýri barnananna í Víðigerði. Áður gátum við sögubóka hans um hernámið all margar fleiri sögubækur komu úr hans ranni nægir þar að nefna Byrðingar er fjallaði um skipasmíði einnig ritaði hann sögu Blikksmiða hér á landi.
Þá er að geta hans merku ævisagnaverka hvar fremst í flokki er án efa Skáldið á Þröm er fjallar um hina harmþrungnu ævi skáldsins Magnúsar Hj. Magnússonar sem er fyrirmyndin Ljósvíkingi Halldórs Laxness í Heimsljósi. Víst var Magnús Gunnari hugleikinn því árið 1983 stóð hann fyrir því að reistur var sérstakur minnisvarði á Suðureyri á þeim stað er Magnús bjó og nefndi Þröm. Sagði að það væri þó eigi vegna þess að allt væri á heljarþröm, en næstum því. Það var hinn listhagi Súgfirðingur Guðmundur A. Guðnason er minnisvarðann gjörði.
Að síðustu er rétt að minnast dulítið á leikverk úr ranni Gunnars. Þeirra merkast er líklega Í múrnum sögulegt verk er gjörist í þá fangelsi þjóðarinnar sem er nú aðsetur ríkisstjórnar Íslands og nefnt Stjórnarráðshúsið. Leikurinn var fluttur í Ríkisútvarpinu 1964 þegar enn voru þar gerð útvarpsleikrit og sama ár kom leikritið út á bók. Fleiri leikverk ritaði hann til flutnings í landsútvarpinu má þar nefna Herrans hjörð sem er framhaldsleikverk um ævi skáldsins Hjálmars er kenndur var við Bólu.
Embætti landlæknis birti í gær endurskoðaða útgáfu opinberra ráðlegginga um mataræði fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri. Faghópur á vegum embættisins vann að gerð ráðlegginganna sem byggja á bestu vísindalegu þekkingu á sambandi mataræðis og heilsu en einnig er tekið tillit til matarvenja þjóðarinnar. Aukin áhersla er nú lögð á grænmeti, ávexti og heilkornavörur.
Ráðleggingar um mataræði voru fyrst gefnar út á Íslandi árið 1986 en síðan þá hafa þær verið endurskoðaðar fjórum sinnum. Þessi endurskoðun fylgir ávallt í kjölfar uppfærslu á Norrænum næringarráðleggingum þar sem hópur sérfræðinga fer kerfisbundið yfir rannsóknir á sviði næringar og heilsu.
Í nýjum ráðleggingum er aukin áhersla á grænmeti, ávexti og heilkornavörur. Nýmæli er umfjöllun um orkudrykki sem ekki voru algengir á markaði síðast þegar ráðleggingarnar komu út. Ráðleggingar embættisins í þeim efnum eru skýrar; orkudrykkir eru ekki ætlaðir börnum og ungmennum undir 18 ára.
Minna er ráðlagt af rauðu kjöti en áður og áfram er varað sérstaklega við neyslu unninna kjötvara (s.s. pylsur, bjúgu, naggar, beikon o.s.frv.), hvoru tveggja vegna aukinnar krabbameinsáhættu. Einnig er ráðlagt að takmarka neyslu á matvælum sem innihalda mikið af fitu, salti og sykri og að forðast áfengi, meðal annars vegna krabbameinsvaldandi áhrifa.
Nýju ráðleggingarnar leggja höfuðáherslu á eftirfarandi þætti:
Njótum fjölbreyttrar fæðu með áherslu á mat úr jurtaríkinu
Veljum grænmeti, ávexti og ber oft á dag
Veljum heilkorn, helst þrjá skammta á dag
Veljum fisk, baunir og linsur oftar en rautt kjöt – takmörkum neyslu á unnum kjötvörum
Veljum ósætar og fituminni mjólkurvörur daglega
Veljum fjölbreytta og mjúka fitugjafa
Takmörkum neyslu á sælgæti, snakki, kökum, kexi og sætum drykkjum
Mannfjöldi á Íslandi var 389.444 þann 1. janúar 2025 samkvæmt nýju mati Hagstofu Íslands og hafði íbúum fjölgað um 5.718 frá 1. janúar 2024 eða um 1,5%. Alls voru 199.622 karlar, 189.623 konur og 199 kynsegin/annað búsett á landinu í upphafi ársins og fjölgaði körlum um 1,6% frá fyrra ári, konum um 1,4% og kynsegin/öðru um 25,2%.
Á undanförnum áratugum hefur aldurssamsetning landsmanna breyst töluvert. Almennt má segja að börnum hafi fækkað hlutfallslega en eldra fólki fjölgað. Framfærsluhlutfall er annars vegar reiknað sem hlutfall aldraðra (65+) af fólki á vinnualdri 20–64 ára og hins vegar sem hlutfall barna og ungmenna (0–19 ára) af sama hópi. Á síðastliðnum tíu árum hefur hlutfall fólks á aldrinum 0–19 ára lækkað úr 46,6% í 40,7% af fólki á vinnualdri en hlutfall aldraðra (65+) aukist úr 23,3% í 26,5% og hefur aldrei verið hærra.
Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 4.877 fleiri þann 1. janúar 2025 en fyrir ári. Það jafngildir 2,0% fjölgun íbúa á einu ári. Hlutfallsleg fólksfjölgun var mest á Suðurlandi þar sem fjölgaði um 3,5% á síðasta ári og á Vesturlandi en þar var fjölgunin 2,0% milli ára. Í öðrum landshlutum var fólksfjölgun undir landsmeðaltali. Á Norðurlandi eystra fjölgaði um 1,4%, á Austurlandi fjölgaði um 1,2%, á Norðurlandi vestra um 0,8% og á Vestfjörðum um 0,1%. Hins vegar fækkaði íbúum á Suðurnesjum um 4,4% og skýrist sú fækkun aðallega af flutningum frá Grindavík á árinu 2024.
Íbúum fækkaði í 9 af 62 sveitarfélögum Sveitarfélög á Íslandi voru alls 62 þann 1. janúar 2025 og hafði þeim fækkað um tvö frá fyrra ári. Reykjavík var fjölmennasta sveitarfélagið með 138.772 íbúa en Tjörneshreppur fámennasta sveitarfélagið með 53. Alls höfðu 27 sveitarfélög færri en 1.000 íbúa, þar af fjögur með færri en 100 íbúa. Í ellefu sveitarfélögum voru 5.000 íbúar eða fleiri.
Í fyrra fækkaði íbúum í 9 af 62 sveitarfélögum landsins. Mest var fækkunin í Grindavíkurbæ en þar fækkaði um 2.333 íbúa og nam fækkunin 65% milli ára. Af ellefu stærstu sveitarfélögunum, með 5.000 íbúa eða fleiri, fjölgaði hlutfallslega mest í Garðabæ eða um 5,4% og í Sveitarfélaginu Árborg um 4,3%. Í Reykjavíkurborg var fjölgunin undir landsmeðaltali eða 1,4%. Af ellefu stærstu sveitarfélögunum fjölgaði minnst í Múlaþingi eða um 1,1% og næstminnst í Akureyrarbæ um 1,2%.
Sólrisuleikrit Menntaskólans á Ísafirði er ein af þessum gömlu og góðu hefðum skólans.
Í ár varð hinn vinsæli söngleikur Grease fyrir valinu hjá leikfélaginu. Öll sem koma að leiksýningunni hafa lagt hart að sér síðustu vikurnar og eru þau mjög spennt að sýna bæjarbúum afraksturinn.
Frumsýning verður 22.mars kl. 20:00 og er sýnt í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Leikstjóri er Birgitta Birgisdóttir.
Í drögum að reglugerð um strandveiðar sem birtar hafa verið í samráðsgátt eru lagðar til þrjár breytingar.
Í fyrsta lagi er lagt tl að að skylt verði að sækja um leyfi til strandveiða fyrir tiltekið tímamark, en framkvæmdin hefur verið að heimilt hefur verið að sækja um eftir að strandveiðitímabil hefst. Lagt er til að sækja þurfi um leyfi til strandveiða fyrir 15. apríl og ekki verið heimilt að sækja um strandveiðileyfi eftir það tímamark. Þó verði umsækjanda heimilt að tilgreina í umsókn upphafsdag strandveiða, ef t.d. umsækjandi er að ljúka veiðum í öðrum kerfum.
Í öðru lagi er skilyrði um eignarhald þar sem lagt er til að eigandi lögaðila sem er lögskráður á fiskiskip á strandveiðitímabilinu skuli eiga að minnsta kosti meirihluta í lögaðilanum. Þannig getur strandveiðiskip í eigu lögaðila ekki haldið úr höfn nema sá sem á meira en 50% í lögaðila sé lögformlega skráður um borð í skip í gegnum lögskráningarkerfi sjómanna.
Í þriðja lagi er lagt til að skipstjóra strandveiðiskips verði skv. reglugerð skylt að senda aflaupplýsingar stafrænt til Fiskistofu áður en skipi er lagt að bryggju í löndunarhöfn að lokinni veiðiferð.
Umsagnafrestur um þessar breytingar er til 20. mars.
Sveitarstjórn Strandabyggðar ræddi á fundi sínum í vikunni um áframhald á borunum á Gálmaströnd. Þar er jarðhita að finna og hefur verið borað þar eftir nýtanlegu heitu vatni. Þar er jarðhiti en ekki hefur tekist að finna vatnsæðina.
Sveitarstjórnin samþykkti að tillögu A listans að „skora á Vestfjarðastofu og þingmenn NV- kjördæmis að beita sér af fremsta megni til þess að Orkubú Vestfjarða haldi áfram við beislun jarðhitans á Gálmaströnd við Steingrímsfjörð. Jákvæður árangur þar skiptir mjög miklu máli varðandi atvinnuuppbyggingu og búsetuskilyrði í Strandabyggð.“
Gróunes, Gróneshyrna og Gufufjörður í bakgrunni, séð til norðvesturs,
Mynd: Mats Wibe Lund.
Vegagerðin hefur boðið út byggingu tveggja steyptra brúa á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit. Annars vegar er um að ræða 58 m langa brú á Djúpafjörð við Grónes og hins vegar um 130 m langa brú á Gufufjörð. Innifalið í verkinu er rif á núverandi 119 m bráðabirgðabrú á Gufufirði ásamt efnisflutningum úr núverandi vinnuplönum og gerð grjótvarnar/rofvarnar. Verkinu skal að fullu lokið 30. september 2026.
Fram kemur í tilkynni Vegagerðarinnar að um stóran áfanga er að ræða í því markmiði að bæta samgöngur um Vestfirði með því að tryggja áreiðanlegar og öruggar samgöngur um Vestfjarðaveg.
Útboðsgögn eru aðgengileg og verða afhent í rafræna útboðskerfinu TendSign frá og með föstudeginum 14. mars 2025 og skal tilboðum skilað rafrænt í því útboðskerfi fyrir kl. 14:00 þriðjudaginn 29. apríl 2025.
Ekki verða haldnir sérstakir opnunarfundir en eftir lok tilboðsfrests verður bjóðendum tilkynnt um nöfn bjóðenda í útboðinu og verðtilboð. Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.
Vegagerðin, í samstarfi við Vestfjarðastofu, býður til opins íbúafundar í Félagsheimilinu á Patreksfirði þriðjudaginn 18. mars klukkan 17:30. Fulltrúar frá Vegagerðinni munu fjalla um ýmis samgöngumál sem tengjast svæðinu og boðið verður upp á spurningar og umræður.
Í kynningu á fundinum segir að Vegagerðin vilji eiga opið og hreinskilið samtal við íbúa á Vestfjörðum um samgöngumál svæðisins. Markmiðið með fundinum er að veita íbúum upplýsingar um yfirstandandandi og fyrirhugaðar framkvæmdir, fá innsýn í starfsemi Vegagerðarinnar á svæðinu og koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Til að tryggja að sem flestir geti fylgst með verður fundinum einnig streymt á netinu, auk þess sem hægt verður að senda inn spurningar í gegnum Slido.com.
Allir eru velkomnir, og að sjálfsögðu verður heitt á könnunni.
Dagskrá
Ávarp – Páll Vilhjálmsson, formaður innviðanefndar Fjórðungssambands Vestfirðinga.
Nýframkvæmdir – yfirstandandi framkvæmdir og hvað er fram undan. Sigurþór Guðmundsson, verkefnastjóri á framkvæmdadeild.
Jarðgangakostir – farið yfir þá jarðgangakosti sem til greina koma á svæðinu. Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs.
Staða vegakerfisins – aldur vega og brúa og hvað er til ráða. Pálmi Þór Sævarsson, svæðisstjóri Vestursvæðis.
Vetrarþjónusta – hvernig er þjónustunni háttað? Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs.
Gerður Sveinsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, verður fundarstjóri