Vikuviðtalið: Valgerður María Þorsteinsdóttir

Ég heiti Valgerður María Þorsteinsdóttir og fæddist árið 1997 í Vestmannaeyjum en ólst að mestu leyti upp í Grindavík. Ég þekkti því lítið annað en hamslaust rokið áður en ég flutti í blíðuna á Bíldudal árið 2022. Faðir minn er Eyjapeyinn Þorsteinn Gunnarsson og móðir mín er Grindvíkingurinn Rósa Signý Baldursdóttir. Við erum þrjú systkinin, bræður mínir eru Guðjón Þorsteinsson nemandi í Verzlunarskólanum, kærasta hans er Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir, og Gunnar Þorsteinsson, rafhlöðuverkfræðingur sem býr og starfar í Californiu, kona hans er Lovísa Falsdóttir og þau eiga þrjú yndisleg börn.

Mér finnst rétt að taka fram í þessum vestfirska fréttamiðli að mamma er einnig Ísfirðingur og er alin þar upp að hluta en móðurafi minn var Ísfirðingurinn Baldur Sigurbaldursson, skipstjóri á Þórveigu ÍS 222, kona hans og amma mín var Valgerður María Guðjónsdóttir. Nú þegar mér hefur rækilega tekist að rekja ættir mínar vestur á firði líkt og ég væri stjórnmálamaður í kosningabaráttu færi ég mig aftur yfir í samtímann.

Eftir tvær háskólagráður og endalaust flakk á milli landa og landshluta fékk ég starf hjá Vesturbyggð fyrir þremur árum sem forstöðumaður Muggsstofu og menningar- og ferðamálafulltrúi og lagði þá leið mína yfir heiðar og malarvegi til að flytja vestur. Starfið er svo fjölbreytt og víðtækt að ég á gjarnan erfitt með að svara á stuttan og laggóðan máta hvað ég ,,geri eiginlega í vinnunni.“ Sem menningar- og ferðamálafulltrúi hef ég yfirumsjón með tjaldsvæðum og félagsheimilum sveitarfélagsins og held utan um bæjarhátíðir þess, svo sem 17. júní og tendranir á jólatrjám. Þá er ég tengiliður þess um allt er varðar menningu og ferðaþjónustu og kem einnig að umsjón heimasíðu og samfélagsmiðla Vesturbyggðar. Sem forstöðumaður Muggsstofu, samfélags- og menningarmiðstöðvar á Bíldudal, sé ég um bókasafn Bílddælinga og félagsstarf eldra fólks. Í félagsstarfinu er líf og fjör, næst á dagskrá eru stífar æfingar fyrir komandi pílukeppni á móti mið- og unglingastigi Bíldudalsskóla.

Það var mikið lán í óláni fyrir mig þegar starfsemi Bíldudalsskóla flutti yfir í Muggsstofu haustið 2022 vegna myglu í skólahúsnæðinu og ég hef því daglegan félagsskap af starfsfólki skólans. Það mun síður en svo losna við mig þegar starfsemi Bíldudalsskóla færist yfir í glænýtt húsnæði í haust því ég stefni á að troða mér inn í kaffitímann þeirra reglulega, jafnvel þó ég þurfi að greiða fyrir það af og til í formi bakkelsis. Auk þess keyri ég yfir á Patreksfjörð tvisvar í viku til að vinna í ráðhúsi Vesturbyggðar. Þar hitti ég gott og reynt samstarfsfólk sem er alltaf til í að ráðleggja og hjálpa mér með vinnuna og taka þátt í fíflalátunum þess á milli.

Menning og listir eru mitt helsta áhugamál og ég myndi segja að ég væri menningarstórneytandi. Þegar ég var í námi í London fór ég vikulega í leikhús eða á myndlistarsýningar en eftir að ég flutti á Bíldudal hef ég hlustað meira á tónlist, lesið og horft á kvikmyndir. Svo reyni ég að sjálfsögðu að sækja alla þá menningarviðburði sem við íbúar Vesturbyggðar erum svo heppnir að geta sótt í heimabyggð, svo sem tónlistarhátíðirnar Alþjóðlegu píanóhátíð Vestfjarða og Blús milli fjalls og fjöru, að ógleymdri heimildamyndahátíðinni Skjaldborg.

Það skemmtilegasta sem ég geri er að syngja í góðum félagsskap og finnst því fátt betra en gott gítarpartý, sem mig vanhagar að sjálfsögðu ekki um á Bíldudal. Mér líður stundum eins og örlögin hafi leitt mig hingað, ég varð samstundis heimakær og gekk meira að segja svo langt að kaupa mína fyrstu íbúð í plássinu þar sem ég get dáðst að Byltunni á hverjum morgni. Bílddælingar eru skemmtilegir, söngelskir húmoristar með stóra persónuleika sem er akkúrat sú manngerð sem ég vil vera umkringd á hverjum degi.

Eftir að hafa tíundað ætt mína í upphafi þessa viðtals er ótalin sú vestfirska fjölskylda sem ég hef eignast í öllum mínum góðu vinum á svæðinu sem eru mér til halds og trausts og eru alltaf til í að mála fjörðinn rauðan. Þar á meðal er vinkona mín og meðleigjandi Erna Lea Bergsteinsdóttir, Hafnfirðingur sem flutti vestur nýlega til að taka við starfi verkefnastjóra farsældar hjá Vestfjarðastofu. Sambúð okkar stallanna fer einkar vel af stað, hún fer í sturtu á kvöldin en ég á morgnana og því hefur okkur ekki enn tekist að klára heita vatnið úr litla hitakútnum sem er annars daglegur fylgifiskur þess að búa á Bíldudal, eins og víðar á Vestfjörðum. Mér finnst ég heppin að búa og starfa hér og verð ævinlega þakklát fyrir móttökurnar.

DEILA