Laugardagur 12. apríl 2025

Vikuviðtalið: Dóra Hlín Gísladóttir

Auglýsing

Dóra Hlín Gísladóttir er fædd í janúar 1980 í Reykjavík en flutti 3 ára til Ísafjarðar þar sem hún fór fyrst í leikskólann Hlíðarskjól, þá Grunnskólann á Ísafirði og svo Menntaskólann á Ísafirði. Dóra Hlín er dóttir Önnu Kristínar Ásgeirsdóttur og Gísla Jóns Hjaltasonar og er ættuð úr Ísafjarðardjúpi og Bolungarvík, Anna Kristín alin upp á Ísafirði og Gísli Jón alinn upp í Garðabæ en eyddi sumrunum í Bolungarvík.

Dóra Hlin er gift Hálfdáni Bjarka Hálfdánssyni og eiga þau fjögur börn á aldrinum 2 ára til 16 ára. Hálfdán Ingólf, 16 ára, Önnu Ásgerði, 12 ára, Laufeyju Þuríði, 9 ára og Hugrúnu Halldóru 2 ára. Fjölskyldan býr í Túngötunni á Ísafirði og eiga þau líka tvo ketti. Dóra segir að það sé alltaf nóg um að vera á heimilinu og mikið líf og fjör – en þannig segist hún líka einmitt vilja hafa lífið.

Eftir útskrift úr Menntaskólanum á Ísafirði fór Dóra Hlín og skoðaði sig örlítið um í Evrópu. Dvaldi vetur á Spáni og lærði þar spænsku áður en hún nam efnaverkfræði við Háskóla Íslands, Háskóla í Kaliforníu og Tækniháskólann í Stokkhólmi. Dóra segir að það hafi ekki verið erfið ákvörðun að setjast að á Ísafirði. Hér eru ræturnar og hér líður þeim hjónum best, hér er líka alltaf nóg um að vera. Á Ísafirði er einhver sérstakur kraftur sem birtist í framtakssemi og sköpunargleði samborgara okkar.

Dóra Hlín starfar sem vöruþróunarstjóri hjá líftæknifyrirtækinu Kerecis og hefur starfað hjá Kerecis frá upphafi. Dóra Hlín kynntist Guðmundi Fertram, stofnanda Kerecis, þegar hún vann að verkefni um kortlagningu á möguleikum í sjávarútvegi fyrir Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, og ákvað stuttu síðar að ganga til liðs við Guðmund Fertram og gerast fyrsti launaði starfsmaður fyrirtækisins. Hún segir það hafa reynst henni mikil gæfuspor að ganga til liðs við Guðmund Fertram og að fá að taka með honum fyrstu skrefin í fyrirtækinu, sækja fjármagn, gera fyrstu frumgerðir að sáraroðinu og vinna að því að setja félagið í fullan gang. Dóra Hlín segir vinnuna hjá Kerecis vera fjölbreytta og skemmtilega, og bætir við að taka þátt í svona ævintýri sé meira en bara vinna, heldur líka „lífsstíll“, sem hafi áhrif á alla fjölskylduna og sé mikilvægur þáttur lífi hennar. Í dag starfa Dóra Hlín og eiginmaður hennar Hálfdán Bjarki Hálfdánsson bæði í stjórnunarstöðum innan Kerecis sem sannarlega hefur vaxið úr lítilli rannsóknarstofu í Vestrahúsinu í alþjóðlegt fyrirtæki sem framleiðir lækningatæki fyrir margvíslega vefjauppbyggingu út um allan heim. Árið 2023 keypti danski lækningatækjaframleiðandinn Coloplast Kerecis fyrir hátt í 200 milljarða króna og þar með varð Kerecis að fyrsta einhyrningi Íslandssögunnar, en einhyrningar eru fyrirtæki sem ná yfir milljarð dollara í verðmæti áður en þau eru seld eða skráð á markað. Dóra Hlín segir tímann frá sölunni hafa verið ótrúlegan og hún sé sannarlega stolt af því hversu mikla trú nýja móðurfyrirtækið hafi á Kerecis. Það sé vitnisburður um hversu mögnuð vinna hafi farið fram síðasta áratuginn og hversu mögnuð varan sé – vara sem þróuð er og framleidd á Ísafirði. Kerecis hefur alltaf lagt mikið upp úr rannsóknum og staðið að stórum klínískum rannsóknum undanfarin ár sem séu meiri að umfangi en rannsóknir flestra annara fyrirtækja í sama geira. Þetta hafi danska fyrirtækið Coloplast einmitt komið auga á og er það ein af ástæðum þess mikla áhuga sem leiddi til kaupa þeirra á Kerecis. Dóra Hlín segir þó ekki mikið hafa breyst hjá þeim innanhúss eftir sölu, enda lítil ástæða til. Félagið er enn í örum vexti og sala gengur vel.

Auk þessa situr Dóra Hlín í þónokkrum stjórnum og ráðum. Síðasta áratug hefur hún verið formaður fulltrúaráðs HV (Háskólaseturs Vestfjarða) og starfar þar náið með stjórn. Dóra Hlín segir að það sé sérstaklega gefandi vinna og það að fylgjast með hversu faglegt starf sé unnið þar innanhúss sé alltaf jafn magnað og hversu mikilvæg stofnunin sé orðin fyrir samfélagið, hún nefnir m.a. að hjá Kerecis starfi þónokkrir sérfræðingar sem fluttu hingað vegna mastersnáms HV. Dóra Hlín er einnig fulltrúi í skólaráði Tónlistarskóla Ísafjarðar og stjórnarmeðlimur hjá bæði fyrirtækjum og félagasamtökum. Þar ber sérstaklega að nefna Litla Leikklúbbinn. Hún segir það hafa verið hálfgerða tilviljun en einhvern veginn alltaf blundað í henni að það yrði gaman að ganga inn í LL og gera skemmtilega hluti með skemmtilegu fólki. Stjórnarseta í LL hefur svo akkúrat uppfyllt það, að gera skemmtilega hluti með skemmtilegu, fólki og ber þar hæst að fljótlega eftir að Dóra kom inn í stjórn var ákveðið að setja upp stóran söngleik með Tónlistarskóla Ísafjarðar. Dóra Hlín segir það hafa verið gríðarlega mikið ævintýri og með faglegri stjórn Þórhildar Þorleifsdóttur og Beötu Joó og með Bergþór Pálsson í aðalhlutverki hafi verkið farið fram úr öllum björtustu vonum. Handtökin voru mörg en útkoman skilaði bæði mögnuðum minningum, sterkum vinatengslum og betri listrænni þekkingu og reynslu. Dóra Hlín segir að allir sem að verkinu komu muni búa að því fyrir lífstíð og að sambönd sem myndist við slíka uppsetningu rofni seint.  Þá setti Litli Leikklúbburinn upp annað leikrit á síðasta ári, með allt öðru sniði og fyrir annan markhóp en það var lítið jólaleikrit fyrir börn. Hún segir það líka hafa komið enn og aftur skemmtilega á óvart hversu mikill mannauður er til hér í samfélaginu og hversu mikilvægt geðheilsunni það er að hafa gaman saman.

Dóra Hlín segir að alls konar svona utanaðkomandi þættir séu einmitt ástæða þess að hún elski að búa á Ísafirði en reyndar elski hún að búa á fullt af stöðum og gæti sannarlega látið sér líða vel hér og þar. Það er þó auðvitað þannig að líf með stórri fjölskyldu og fullt af áhugamálum, ásamt fullri vinnu, rúmist betur í minna samfélagi. Samfélagi þar sem börnin geta sjálf gengið til og frá skóla, skottast í kakó til ömmu og afa á meðan beðið er eftir næsta tónlistartíma og verið frjáls í leik þess á milli. Að ekki sé talað um hversu mikill lúxus það sé að búa í samfélagi þar sem er hægt að skjótast á skíði eftir vinnu með frekar litlum tilkostnaði.

Auglýsing
Auglýsing

Fleiri fréttir

Auglýsing

Fleiri fréttir