Vesturbyggð styður aukið laxeldi segir Gerður B. Sveinsdóttir, bæjarstjóri og segir að það hafi aldrei verið vafi á því.
Umsögn umhverfis- og loftlagsráðs sveitarfélagsins frá 24. mars um um áform Arnarlax vegna aukningar á umfangi sjókvíaeldis fyrirtækisins í Arnarfirði úr 11.500 tonna hámarkslífmassa í 16.000 tonn var þannig að fyrirhugaðar breytingar þurfi að fara fyrir svæðisráð strandsvæðaskipulags, nýtt umhverfismat og aukið reglubundið eftirlit þriðja aðila, þar sem um verulega stækkun á svæðum er að ræða. Einnig þurfi að auka tíðni reglulegs eftirlits fyrirtækisins á kvíum til að minnka líkur á slysasleppingum.
Bæjarins besta beindi þeirri fyrirspurn til formanns nefndarinnar Freyju Ragnarsdóttur Petersen hvernig ætti að skilja þessa bókun nefndarinnar, hvort umsögnin væri ekki bein andstaða nefndarinnar við aukninguna.
Svar barst í dag og segir Freyja að umhverfis- og loftslagsráð Vesturbyggðar gæti hagsmuna náttúru og umhverfis sveitarfélagsins og „viljum við tryggja að bestu mögulegu aðferðum og eftirliti sé beitt við nýtingu auðlinda í þessu sveitarfélagi. Ekki er um afstöðu nefndarinnar til fiskeldis að ræða heldur viljum við að gætt sé helsta öryggis á okkar nærumhverfi enda hefur Vesturbyggð ítrekað bent á það. Vesturbyggð er engu að síður hlynnt áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu.“
Freyja var í framhaldinu innt eftir því hvort svarið ætti við áframhaldandi uppbyggingu laxeldis á svæðinu. Því var svarað með því að ítreka fyrra svar.
Gerður B. Sveinsdóttir, bæjarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að Vesturbyggð styddi áframhaldandi uppbyggingu laxeldis á svæðinu. Svar formanns umhverfis- og loftlagsráðs tæki mið af erindisbréfi nefndarinnar, sem væri einkum að gæta hagsmuna náttúru og umhverfis, en ekki að hafa skoðun á laxeldi.