Í vikunni stóð Markaðsstofa Vestfjarða fyrir tveimur opnum fundum um gerð nýrrar áfangastaðaáætlunar Vestfjarða, þar sem ferðaþjónum og íbúum var gefinn kostur á að koma að mótun framtíðarstefnu í ferðamálum á Vestfjörðum. Fundirnir voru haldnir á Dokkunni á Ísafirði og á Skútanum á Patreksfirði.
Markmið áfangastaðaáætlunar er að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu sem skilar sem mestu til samfélagsins um leið og mögulegum neikvæðum áhrifum er haldið í lágmarki. Áætlunin tekur tillit til gesta, íbúa, fyrirtækja og umhverfis og reynir að skapa jafnvægi. Hún auðveldar íbúum að hafa áhrif á hvernig ferðaþjónustan þróast og hvaða skref skuli taka. Þannig eru meiri líkur á að uppbyggingin hafi jákvæð áhrif á efnahag og samfélag.
María Hjálmarsdóttir, sem sérhæfir sig í ráðgjöf á þessu sviði, stýrði fundinum á Ísafirði og er til ráðgjafar við vinnslu áætlunarinnar.
Góð þátttaka var á báðum fundunum og þeir tókust vel að sögn Vestfjarðastofu.