Bygging á nýrri sjoppu fyrir á Torfnessvæðinu hófst í marsmánuði, en undirbúningur hófst strax s.l. haust. Efla sá um að teikna viðbygginguna og eru það Vestfirskir Verktakar sem sjá um bygginguna. Byggingarvinna hefur gengið vel og vonast er til að geta hafið sölu úr nýju byggingunni í apríl, jafnvel í fyrsta heimaleik í Bestu deildinni sem verður sunnudaginn 13.apríl. Við vonumst til að húsið verið þá komið upp, með gluggum og hurðum þó að það verði ekki klárt að innan. Þetta verður gríðarleg upplyfting fyrir svæðið og gerir alla vinnu í kringum heimaleikina auðveldari, öll aðstaða verður mun betri og ekki síður verður hún betri fyrir áhorfendur. Kostnaðurinn er að mestu greiddur af „sjoppu/sjálfboðaliðasjóði“ ef svo má að orði komast, þ.e. öll innkoma sjoppunnar árið 2024 hefur farið í þennan byggingarsjóð og verður þannig áfram. Við sjáum fyrir okkur að innkoma sjoppunnar þetta árið og jafnvel næstu ár fari í kostnaðinn við að klára húsið að innan næsta vetur. Það er alls konar kostnaður sem fellur til í þessu þar sem við viljum hafa þetta upp á tíu, t.d. þurfum við að fjárfesta í kæliskápum, frystiskápum, stólum, borðum o.s.frv. Til viðbótar fékk knattspyrnudeildin uppbyggingarsamning við Ísafjarðarbæ upp í kostnað við uppbyggingu á sjoppunni sem við erum gríðarlega þakklát fyrir.
Það er mikilvægt að taka það fram að ef það væri ekki fyrir sjálfboðaliðana í félaginu og velunnara, þá værum við ekki í þessu verkefni. Knattspyrnudeildin vill þakka öllum þeim sjálfboðaliðum og velunnurum kærlega fyrir alla þá aðstoð og vinnu sem þeir hafa lagt til fyrir félagið og við vonum innilega að við höfum áfram þeirra aðstoð og stuðning. Þegar hugmyndin að þessari byggingu kom, þá lögðumst við í allskonar pælingar, t.d. hvað á byggingin að heita, hvað eigum við að selja þarna sem jafnvel fæst ekki annars staðar. Við leituðum fljótt til dyggra Vestrafélaga þeirra heiðurshjóna Jóa Torfa og Helgu, en eins og flestir bæjarbúar vita þá ráku þau sjoppuna Vitann til fjölda ára og var þar uppáhald margra, hinn margrómaði rækjuborgari. Þau tóku virkilega vel í hugmyndirnar okkar og höfum fengið leyfi hjá þeim til að nota nafnið og merkingarnar þeirra og erum við spennt fyrir því að þróa þá hugmynd áfram – Hver veit nema þú getir kíkt í Vitann að nýju og gætt þér gómsætum rækjuborgara. Þeir sem hafa áhuga á að leggja þessu verkefni lið með styrkjum, geta lagt inn á 0556-26-004108 kt. 4108972619. Áfram Vestri !
Sif Huld, Tinna Hrund og Guðný Stefanía