Forsætisráðuneytið hefur birt skýrslu nefndar um málefni Stranda sem var að störfum á síðasta ári.
Forsætisráðherra skipaði nefnd um málefni Stranda í janúar 2024 og skilaði hún tillögum sínum í ágúst síðastliðnum. Verkefni nefndarinnar var að gera tillögur um hvernig efla mætti byggðaþróun á svæðinu og skapa vaxtarskilyrði fyrir samfélag og atvinnulíf á Ströndum. Skoða skyldi sérstaklega tækifæri sem gætu skapast með sameiningu sveitarfélaga. Nefndin var skipuð fulltrúum forsætisráðuneytis, innviðaráðuneytis, Byggðastofnunar, Fjórðungssambands Vestfirðinga, Árneshrepps, Kaldrananeshrepps og Strandabyggðar.
Megintillögur nefndarinnar voru fjórar:
- Lagt var til að sveitarfélögin þrjú sameinuðust um byggðaþróunarverkefni til allt að fimm ára með aðkomu Vestfjarðastofu, Byggðastofnunar og ráðuneytis. Skilyrði var sett fyrir stuðningi ríkisins að sveitarfélögin þrjú hefji viðræður um sameiningu og kanni jafnframt grundvöll stærri sameininga. Ekki hafa komið fram áform sveitarfélaganna um að hefja sameiningarviðræður og því ekki grundvöllur fyrir verkefninu að svo stöddu.
- Lagt var til að jarðhitaleit yrði haldi áfram á Gálmaströnd í Steingrímsfirði. Að mati nefndarinnar er aðkallandi að halda borunum á Gálmaströnd áfram til að meta umfang auðlindarinnar og nýtingarmöguleika hennar. Nýting jarðhitans fæli í sér mikla möguleika til uppbyggingar á nýjum atvinnuvegum ásamt því að styrkja grundvöll núverandi atvinnustarfsemi og búsetuskilyrði á svæðinu. Forsætisráðuneytið mun fara þess á leit við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið að kannaðar verði leiðir til að vinna að framgangi jarðhitaleitarinnar.
- Lagt var til að stutt yrði við ljósleiðaravæðingu á Hólmavík. Tillagan komst til framkvæmda undir lok síðasta árs þegar hrint var í framkvæmd átaki til að ljúka ljósleiðaravæðingu landsins fyrir árslok 2026.
- Lagt var til að skipaður yrði starfshópur sem fengi það hlutverk að kanna kosti þess og galla að skilgreina vegina um Vestfirði (vegi 60, 61, 62, 63 og 68) sem hringveg sem fengi vegnúmerið 2. Innviðaráðherra hefur ákveðið að skipa slíkan starfshóp.
Auk þessara fjögurra megintillagna voru fjölmargar aðrar aðgerðir og tillögur ræddar í vinnu nefndarinnar. Í skýrslu nefndarinnar er gerð grein fyrir þeim og hvatt til að þær verði skoðaðar.
Efling byggða á Ströndum – Tillögur nefndar forsætisráðherra um málefni Stranda