Þjóðverjinn Thomas Bing er sigurvegari 50 km Fossavatnsgöngunnar á Ísafirði, sem fagnar 90 árum í ár. Thomas sigraði með nokkrum yfirburðum og kom í mark á tímanum 02:15:02.5. Næstur á eftir honum var Svíinn Rickard Ericsson með tímann 02:19:51.4 og í þriðja sæti var Ísfirðingurinn Snorri Einarsson.
Fyrst kvenna í 50 km var Ísfirðingurinn Linda Rós Hannesdóttir á tímanum 03:26:44.3. Næst var Edda Vésteinsdóttir á tímanum 03:44:20.3 og í þriðja sæti Beth Bernhardt frá Bandaríkjunum á 03:46:25.7.
Það er ekki hægt að segja annað en að veðrið hafi leikið við þátttakendur að þessu sinni, heiðskír himinn, logn og hiti um -3°C.
„Við erum virkilega lukkuleg með þetta afmælisveður sem við fengum, enda er allt léttara þegar veðrið er með okkur í liði,“ segir Kristbjörn Róbert Sigurjónsson, Bobbi, starfsmaður göngunnar. „Þar sem voraði ansi hratt hjá okkur síðustu daga fyrir göngu var 50 kílómetra gangan tveir 25 kílómetra hringir. Það var þó ekki hægt að kvarta undan aðstæðum í sporinu, þar var að mestu harðpakkaður gamall snjór, sem gaf þétt og gott spor.“
Um 460 keppendur voru skráðir í 12,5, 25 og 50 kílómetra Fossavatnsgöngurnar, þar af um 270 í 50 kílómetrana.
Sigurvegari í 25 km göngu karla var Ísfirðingurinn Eyþór Freyr Árnason, annar var Martin Jancus frá Slóvakíu og þriðji Elías Mar Friðriksson. Í flokki kvenna var María Kristín Ólafsdóttir fyrst, Ingebjørg Kåsen frá Noregi önnur og Kolfinna Íris Rúnarsdóttir þriðja.
Úrslit í heild má finna á www.timataka.net.

Thomas Bing, sáttur við öruggan sigur.