Í gær voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerðarbreytingu um vigtun og skráningu á sjávarafla. Lagt er til að aflaskráningu strandveiðibáta verði lokið á hafnarvog.
Í kynningu atvinnuvegaráðuneytisins segir að með þeirri breytingu muni endurvigtunum fækka um þúsundir árlega með minni líkum á mistökum við innslátt upplýsingum. Þá muni breytingin einnig draga verulega úr möguleikum á rangri skráningu á ís í afla.
Breytingin er eftirfarandi: Á eftir 3. mgr. 11. gr kemur ný málsgrein svohljóðandi:
„Allan strandveiðiafla skal vigta á hafnarvog. Vigtarmaður skal draga 3% frá vegnum afla vegna áætlaðs íss í afla eftir að hafa gengið úr skugga um að aflinn sé ísaður“.
Rúmlega helmingur allra landana dagróðrabáta kemur frá strandveiðiflotanum og segir ráðuneytið að í framhaldi af reynslu af breytingunni verði skoðað hvort ástæða sé til að ljúka allri vigtun dagróðrabáta á hafnarvog við löndun.
„Breytingin er mikilvægt skref til að auka traust, trúverðugleika og öryggi í fiskveiðistjórnun og muni stuðla að hagkvæmari ferlum við skráningu sjávarafla“ segir í greinargerð ráðuneytisins með breytingartillögunni.