Í dag var birt í Stjórnartíðindum reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 460/2024 um strandveiðar og eru helst breytingar þær að umsóknir um leyfi til strandveiða skulu berast Fiskistofu fyrir 22. apríl ár hvert og skal í umsókn tilgreina upphafsdag strandveiða innan strandveiðitímabils skv. 1. mgr. 2. gr.
Á eftir 2. málsl. 4. mgr. koma tveir nýir málsliðir sem verða 3. og 4. málsl., svohljóðandi: Um borð í hverri strandveiðiferð skal vera einn einstaklingur sem er lögskráður á skipið og á að lágmarki beint eða óbeint í gegnum lögaðila, meira en 50% eignarhlut í skipinu.
Eignarhald skips ræðst af skráningu í skipaskrá Samgöngustofu og eignarhald lögaðila miðast við skráningu raunverulegs eiganda hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og á eftir 1. málsl. 5. mgr. kemur nýr málsl. sem verður 2. málsl., svohljóðandi: Eigandi lögaðila sem er lögskráður á fiskiskip á strandveiðitímabilinu skv. 1. mgr. 2. gr. skal eiga meira en 50% í lögaðilanum.
Við 5 grein reglugerðarinnar bætist að skráning aflaupplýsinga við strandveiðar fer fram samkvæmt ákvæðum reglugerðar um stafræna skráningu og skil aflaupplýsinga, nr. 307/2023. Við vigtun á hafnarvog skal löggiltur vigtarmaður tengja saman aflaskráningu við það auðkenni sem aflaupplýsingar strandveiðibáts hefur fengið með stafrænni skráningu og skilum skipstjóra úr hverri veiðiferð.