Sjúkrahúsið á Ísafirði: ekki hægt að taka á móti slösuðum sjómönnum fyrir kl 8 að morgni

Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa að þau svör fengust á sjúkrahúsinu á Ísafirði að ekki væri hægt að taka á móti slösuðum sjómönnum fyrr en kl 8 að morgni. Tveir slasaðir sjómenn af Sólborgu RE 27 voru þó fluttir þangað þann 5. september 2024. Mbl.is vekur athygli á þessu í morgun.

„Hinn meira slasaði var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði með sjúkrabílnum en sá sem var minna slasaður var keyrður af lögreglu á sjúkrahúsið. Þegar þangað kom taldi sá er var á vakt á sjúkrahúsinu sig ekki geta skráð þá inn og lagði til að lögreglan hýsti mennina til morguns sem lögreglan hafnaði. Mönnunum var því komið fyrir í herbergi á sjúkrahúsinu með tveimur rúmum og fengu þeir að vera þar til morguns. Um morguninn kom enginn að vitja þeirra og að lokum fór sá sem var minna slasaður fram og kom þá í ljós að það vissi enginn af þeim.“

Í skýrslunni er í lokin sú tillaga að

„Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða að komið sé á verklagi sem tryggir að sjómenn sem þangað þurfa að leita á öllum tímum sólarhrings fái tilskylda umönnun.“

DEILA