Sjótækni hefur sótt um aðstöðu á Sandinum í Bolungavík. Vill fyrirtækið fá afnot af svæðinu meðan önnur starfsemi er ekki á svæðinu og byggingar ekki áætlaðar. Svæðið er mikið útivistasvæði bæjarbúa, og segir í erindi Sjótækni að ósk þess sé að halda því þannig. „Með því að Sjótækni taki það til sín og fái að hafa starfsemi, hyggst Sjótækni einnig ganga vel frá þeim verkefnum sem það vinnur að hverju sinni“ segir í erindinu.
Fram kemur að Sjótækni væri tilbúið að gera betra aðgengi fyrir bæjarbúa með því að setja bekki til að tylla sér á og horfa út á haf á svæðinu.
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir bæjarráð jákvætt fyrir þessari starfsemi og það vilji gjarnan vinna með fyrirtækinu að þessari þjónustu og stuðningi við fiskeldið á Vestfjörðum.
„En eins og með margt í lífinu, þá er landnæði takmörkuð gæði og það þarf að skoða vandlega að þessi starfsemi fari saman með aðra hagsmuni á svæðinu. Þetta svæði er deiliskipulagt og það er talsverður áhugi á lóðum fyrir iðnað í Bolungarvík. Svo er Sandurinn útivistarparadís og mikið nýttur sem slíkur meðal íbúa. Svo er næsta nágrenni griðarstaður ýmissa fuglategunda og svo mætti áfram telja.
En ég veit að Sjótækni er meðvitað um þessa stöðu og ég upplifi mikill vilja hjá fyrirtækinu að vinna með hagsmunaaðilum þannig að hægt sé að vinna þetta í sátt við alla hagsmunaaðila.“