Þriðjudagur 15. apríl 2025

Ríkissaksóknari staðfestir öðru sinni að fella niður mál Arctic Fish

Auglýsing

Ríkissaksóknaraembættið hefur með ákvörðun sem tekin var í gær staðfest ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum frá 2. janúar 2025 um að fella niður kærumál á hendur Stein Ove Tveiten framkvæmdastjóra Arctic Fish og stjórn fyrirtækisins vegna slysasleppingar á eldislaxi úr eldiskví í Patreksfirði í ágúst 2023. Rannsóknin laut að því hvort forstjórinn og stjórn bæru refsiábyrgð á því að fiskur slapp úr eldiskvínni með því að vanrækja að til staðar væri nauðsynlegur umbúnaður við fiskeldið.

Lögreglustjórinn á Vestfjörðum komst að þeirri niðurstöðu í byrjun ársins, öðru sinni, að fella niður málið með vísan til 145. gr. sakamálalaganna, þ.e. á þeim grunni að ekki væru komnar fram upplýsingar í málinu sem væru nægilegar  eða líklegar til sakfellis.

Eftir slysasleppinguna hóf lögreglustjórinn á Vestfjörðum rannsókn og lauk henni með ákvörðun 19. desember 2023 um að hætta rannsókn málsins. Sú ákvörðun var kærð til Ríkissaksóknaraembættisins. Voru kærendur alls 23, m.a. Matvælastofnun, einstaklingar, veiðifélög og söngkonan Björk Guðmundsdóttir. Í apríl 2024 felldi Ríkissaksóknaraembættið ákvörðun lögreglustjórans úr gildi og fól honum að fullrannsaka málið og taka ákvörðun á grundvelli 145. greinar laganna að henni lokinni.

Þessi seinni ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum var einnig kærð til Ríkissaksóknara. Það voru Matvælastofnun og veiðifélag Blöndu og Svartár sem kærðu. Vildu kærendur að ákvörðun lögreglustjórans yrði felld úr gildi og að öðru embætti eða sérstökum rannsakanda yrði falið að rannsaka málið.

Það er niðurstaða Ríkissaksóknara að fullnægjandi verklagsreglur hafi verið fyrir hendi við afhendingu á eldisfiski í brunnbát og að framkvæmdastjóri og/eða stjórnarmenn hafi aðhafst til að tryggja að unnið væri eftir þeim verklagsreglum. Var því ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum staðfest.

Auglýsing

Auglýsing

Nýtt á BB

Auglýsing
Auglýsing

Fleiri fréttir