Föstudagur 18. apríl 2025

Ríkis­saksóknari: lands­samband veiði­félaga fær ekki aðgang að gögnum rannsóknar á slysa­sleppingu

Auglýsing

Landssamband veiðifélaga krafðist þess í byrjun árs að lögreglustjórinn á Vestfjörðum afhenti sambandinu, sem telur sig aðila málsins, öll gögn rannsóknar embættisins á slysasleppingu í Patreksfirði í ágúst 2023 úr kví Arctic Fish. Lögreglustjórinn hafnaði kröfunni og var sú ákvörðun kærð til Ríkissaksóknaraembættisins.

Niðurstaða Ríkissaksóknara var að ekki væri unnt að líta svo á að félagið hafi stöðu brotaþola skv. lögum um meðferð sakamála og eigi því ekki rétt á afhendingu gagnanna á þeim grundvelli. En brotaþoli er skv. þeim lögum sá sem hefur orðið fyrir misgjörð vegna afbrots. Var þar með ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum um að synja um aðgang að gögnunum staðfest.

Landssambandið visaði einnig til þess að það væri aðili máls þar sem það gætti hagsmuna allra veiðifélaga á landinu. Ríkissaksóknari segir um það atriði að ekki hafi verið sýnt fram á að félagið hafi slíkra lögvarinna hagsmuna að gæta að það eigi rétt á að fá aðgang að gögnunum.

Niðurstaða rannsóknarinnar var að verklagsreglur voru fyrir hendi og að svæðisstjóri var ábyrgur fyrir þeim reglum sem ekki var farið eftir. Fram kom í rannsókninni að starfsmönnum Arctic Fish var kunnugt um verklagsreglurnar, haldnir voru árlegir gæðafundir með öllum starfsmönnum þar sem farið var yfir bæði verklag og viðbragð með ýmsum uppákomum.

Telur Ríkissaksóknari að stjórnendur, framkvæmdastjóri og stjórn Arctic Fish hafi aðhafst til að tryggja að unnið væri eftir verklagsreglum. Staðfesti Ríkissaksóknari því ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum um að fella málið niður, en rannsóknin snerist um ábyrgð stjórnenda á slysasleppingunni.

Auglýsing

Nýtt á BB

Auglýsing
Auglýsing

Fleiri fréttir