Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi hefur vakið athygli á því að Reykjavíkurborg hafi ekki svarar þremur erindum Isavia um öryggismál á flugvellinum.
Í pósti til Bæjarins besta segir hann að Isavia hafi sent erindi vegna allra málanna til Reykjavíkurborgar sumarið 2023. Ekkert erindanna hafi verið afgreitt og tveimur hafi ekki verið svarað.
„Ég tel að óhæfilegur dráttur hafi orðið á meðferð málanna, sem rekja megi til þeirrar pólítísku stefnu borgarinnar mörg undanfarin ár að þrengja beri að flugvellinum og stuðla þannig að því að hann víki frá núverandi stað. Tel ég sérstaklega ámælisvert að sú stefna hafi orðið til þess að sjálfsagðar endurbætur eins og þessar, allar í öryggisskyni, hafi ekki hlotið eðlilega meðferð í borgarkerfinu heldur orðið þessari tafastefnu að bráð.
Umsögn barst loks frá skipulagsfulltrúa í lok febrúar sl. varðandi samgöngumastrið. Í því felst þó engin samþykkt heldur er kveðið á um að vinna þurfi deilsikipulagstillögu áður en lengra er talið. Engin svör hafa hins vegar borist frá borginni varðandi aðflugsljósin og færslu bensíngeymanna, sem ég tel óviðunandi enda um mikilvæg öryggismál að ræða.“
Erindin varða aðflugsljós, færslu eldsneytisgeyma og uppsetningu á myndavélamastri fyrir fjarturn við Reykjavíkurflugvöll.
Kjartan segir að óviðunandi sé að slík öryggismál flugvallar hrakhraufist um borgarkerfið árum saman án niðurstöðu. Um tuttugu mánuðum eftir að erindin voru send bárust loks álit umsagnir frá borginni varðandi tvö málin þar sem kveðið er á um að vinna þurfi deiliskipulagstillögu um þau áður en lengra sé haldið. Ekkert erindanna hefur enn hlotið afgreiðslu og skýr svör hafa ekki fengist um hvort viðkomandi framkvæmdir verði leyfðar.