Fyrr á þessu ári var stofnað rafíþróttafélag Bíldudals. Af því tileffni var rætt við Rúnar Örn Gíslason stofnanda félagsins.
Hve margir eru að stunda rafíþróttirnar og hversu lengi hefur það verið stundað á svæðinu?
Félagið fór fyrst af stað núna í janúar með æfingar og í dag eru sex iðkendur að taka þátt og nokkrir á biðlista, en fjöldinn sem getur tekið þátt er því miður bundinn við fjölda tölva/þjálfara, og þar sem þetta er nýbyrjað og ég einn að þjálfa eins og staðan er get ég bara haldið tvær æfingar í viku með sex iðkendum. Eins og staðan er í dag eru æfingar 2x í viku fyrir aldurshópinn 13-18 ára
Hvernig er skipting kynjanna?
Jafnt hlutfall, en gaman að nefna að þegar ég hélt opnar kynningaræfingar að þá var fyrsta æfingin 100% stelpur og þurftu þæri þá að skiptast á þar sem ekki voru nóg af tölvum fyrir allar. En rafíþróttir eru akkúrat ekkert bundnar kynjum eða aldri heldur bara áhuga.
Hvaða leiki er verið að spila?
Núna í byrjun hefur einbeitingin verið á að prófa sem flesta leiki svo hægt sé að finna nákvæmlega í hvaða leik áhuginn liggur mest en markmiðið er að æfa mest í leikjum þar sem liðsvinna og samskipti eru mikilvæg til þess að ná árangri.
Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér? Lið, keppnir etc.?
Framtíðarplanið er að redda húsnæði þar sem núverandi staðsetning er einungis tímabundin, en því miður er mjög lítið af húsnæði lausu í augnablikinu sem hægt væri fyrir félagið að nýta. Einnig er markmiðið að ná að fjölga tölvum og þjálfurum til þess að geta mætt eftirspurn svæðisins og komið af stað alvöru menningu fyrir rafíþróttum hérna með mótshaldi og viðburðum.
Fyrir utan það er stefna félagsins að fjölga tækifærum til íþróttaiðkunar á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem skipulagðar íþróttir geta reynst erfiðar á litlum stöðum, einnig stefnum við á að taka þátt í þeim mótum sem í boði eru á landinu.
Annars er það draumur hjá mér að fleiri félög verði stofnuð á Vestfjörðum þannig hægt verði að mynda sterkt samstarf, minnka bilið milli bæjarfélaga og búa til vettvang þar sem Vestfirðir í heild geta sameinast, þar sem keppnir í rafíþróttum þurfa ekki að vera bundnar staðsetningum þannig hægt er að hafa keppnisleiki án þess að lið þurfi að koma í persónu, sem hefur reynst erfiðlega í gegnum tíðina hérna á svæðinu.
Þá erum við að tala um hluti bara eins og Vestfjarðamót, eða æfingaleiki á móti liðum frá öðrum félögum að vestan, sameiginlegar æfingar gegnum fjarfund, eða geta sameinast iðkendum frá öðrum félögum til að mynda lið sem getur tekið þátt í þeim mótum og deildum sem eru til staðar.
Eitthvað í lokin
Mig langar að hvetja sem flesta til þess að fara af stað með að stofna rafíþróttarfélög hérna á Vestfjörðum og hafa svo samband við mig. Svo ef það eru einhverjir hérna á sunnanverðum Vestfjörðum sem myndu hafa áhuga á að taka þátt sem þjálfarar og auka þá framboð æfinga á svæðinu, endilega hafa samband. Einnig ef fólk vill koma saman, nýta aðstöðuna og stofna lið innan deildarinnar til þess að taka þátt í þeim mótum og deildum sem eru í gangi hérna á Íslandi að endilega hafa samband við mig.
Hægt er að senda póst á netfangið IFB465@Outlook.com eða senda skilaboð á facebook síðu okkar „RÍFB“
Að lokum langar mér að þakka sérstaklega okkar helstu stuðningsaðilum, Arnarlaxi, Lionsklúbbi Patreksfjarðar, Arctic Fish, Fjarðaleið, Íslenska Kalkþörungafélaginu, ScaleAQ Ísland og Nesskip án þeirra stuðnings hefði þetta ekki verið hægt.
