Vordagur Gott að eldast var haldinn á Nauthóli í Reykjavík á miðvikudag.
Þátttakendur voru starfsfólk frá öllum sveitarfélögum og heilbrigðisstofnunum sem taka þátt í verkefni um samþætta heimaþjónustu.
Sex heilbrigðisstofnanir og 22 sveitarfélög vítt og breitt um landið taka þátt í verkefnunum. Á vordeginum var einnig samankomið fólk úr verkefnisstjórn Gott að eldast, auk þess sem Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, ávarpaði samkomuna.
„Ég veit að fullorðna fólkið okkar er í góðum höndum hjá ykkur. Og ég get lofað ykkur því að það er í góðum höndum hjá fallega hópnum sem er að vinna í mínu ráðuneyti – og það er líka í góðum höndum hjá mér,“ sagði ráðherra meðal annars en hún hefur lagt mikla áherslu á málefni eldra fólks.
Ein meginaðgerðin í aðgerðaáætluninni Gott að eldast er að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum. Öll þjónusta er þá á hendi eins aðila.
