Íbúðafélag Brák er að ljúka við byggingu á fjögurra íbúða raðhúsi á Hólmavík í Strandabyggð.
Byggingaraðilinn Búðingar ehf. hóf framkvæmdir við bygginguna í ágúst síðastliðinn. Húsið er byggt úr forsmíðuðum timbureiningum sem fluttar eru á verkstað og er framkvæmdartíminn því einungis tæplega 12 mánuðir.
Íbúðirnar eiga að fara í útleigu í byrjun sumars og eru þær ætlaðar fyrir tekju- og eignaminna fólk á vinnumarkaði.
Verkefnið fékk samþykkt stofnframlag í fyrstu úthlutun ársins 2023. Fjármögnun verkefnisins er unnin með stuðningi stofnframlaga ríkis og sveitarfélags ásamt leiguíbúðaláni frá HMS.
Brák er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjuminni fjölskyldum aðgengi að íbúðum í langtímaleigu með því að kaupa eða byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi íbúðanna.
Í dag eru 35 sveitarfélög um allt land sem eru aðilar að Brák og er félagið með rúmlega 300 íbúðir sem ýmist eru komnar í útleigu eða eru í undirbúningi.