„Miklar líkur eru á því að vinnsla Odda hf. leggist af verði þær álögur sem drögin gera ráð fyrir að veruleika. Enginn vafi er á því að sú niðurstaða mun skila ríkinu margfalt minni tekjum en er í dag.“ segir í umsögn Odda hf á Patreksfirði í samráðsgátt stjórnvalda um áform um hækkun veiðigjalda.
Hækkunin muni draga úr getu fyrirtækisins til nauðsynlegra fjárfestinga, sem hafi verið um 240 m.kr. á ári frá 2020. Fjárfestingarnar styrki grundvöll fyrirtækisins og auki skattspor þess.
Sjóðstreymi félagsins á síðustu fjórum árum eftir eðlilega viðhaldsfjárfestingu og fjármagnskostnað hafi að meðaltali verið 86 m.kr. á ári. Boðuð hækkun veiðigjaldsins um 60 m.kr. sé um 64% af lausu fé félagsins og verði eftir hækkun 140 m.kr.
„Fram hjá þessum staðreyndum verður ekki horft við mat á getu meðalstórra sjávarútvegsfyrirtækja í brothættum byggðum til að greiða hærra veiðigjald til ríkisins. Miklar líkur eru á því að vinnsla Odda hf. leggist af verði þær álögur sem drögin gera ráð fyrir að veruleika. Enginn vafi er á því að sú niðurstaða mun skila ríkinu margfalt minni tekjum en er í dag.“ segir í umsögninni.
Oddi hf leggur til að frítekjumark verði hækkað margfalt og það verði þrepaskipt. Breytingin á frítekjumarkinu í frumvarpsdrögunum sé aðeins um 5,5 m.kr. sem þýðir að um 55 m.kr. af 60 m.kr. hækkun veiðigjaldsins kemur til greiðslu. Það sé allt of lítið breyting.
Bent er á að í Odda hf. eru starfandi um 75 manns í vinnu í þorpi sem telur 700 íbúa eða um 20% af vinnumarkaði í beinum störfum að ótöldum afleiddum störfum. Fyrirtækið biðlar til stjórnvalda að gefa sér tíma að skoða málið betur, fresta breytingum í eitt ár, láta gera ítarlega úttekt á áhrifum af áætlaðri gjaldtöku á rekstur minni og meðalstórra fyrirtækja, sveitarfélaga og samfélaga.