Tíu nemendur MÍ í stálsmíði brugðu sér til Fredericiu í Danmörku þar sem þeir dvelja þessa vikuna hjá EUC Lillebælt, samstarfsskóla MÍ. Dagskrá hópsins er þétt og góð að sögn Alexíusar Jónassonar, kennara sem fylgir hópnum. Hafa nemendurnir m.a. fengið að vinna hagnýtt verkefni sem er að smíða eldstæði, undir handleiðslu Michaels kennara við EUC.
Nemendurnir byrjuðu á að fá kynningu á verkefninu og teiknuðu síðan smíðastykkið í Inventor-teikniforritinu. Þegar því var lokið hófust nemendur handa við að skera niður parta í laser og eftir það tóku við æfingar í rafsuðu og var góðum tíma varið í þær. Nemendur kláruðu síðan að skera parta, valsa og beygja og að lokum var komið að samsetningu.