Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar var meðalævilengd karla á Íslandi var 80,9 ár árið 2024 og meðalævilengd kvenna 84,3 ár en meðalævilengd sýnir hve mörg ár einstaklingur á að meðaltali ólifuð við fæðingu ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjöldans.
Frá árinu 1990 hafa karlar bætt við sig rúmlega fimm árum og konur tæplega fjórum í meðalævilengd. Ævilengd karla jókst um 0,2 ár frá árinu 2023 á meðan hún jókst nokkru meira hjá konum eða um 0,5 á milli áranna 2023 og 2024.
Ungbarnadauði í Evrópu þriðji minnsti á Íslandi
Árið 2024 létust 2.610 einstaklingar sem búsettir voru á Íslandi, 1.365 karlar og 1.245 konur. Dánartíðni var 6,8 látnir á hverja 1.000 íbúa og stóð í stað á milli ára.
Árið 2024 mældist ungbarnadauði á Íslandi 1,4 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum sem er lækkun um 0,9 frá árinu 2023 og lækkun um 0,6 samanborið við meðaltal tíu undangenginna ára (2014-2023). Þegar horft er á tíu ára tímabil (2014–2023) var ungbarnadauði á Íslandi að meðaltali 2,0 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum og var ungbarnadauði einungis fátíðari en hér á landi í Andorra (1,8), Finnlandi (1,9) og Slóveníu (2,0). Fyrir sama tímabil var ungbarnadauði að meðaltali 2,1 barn í Eistlandi og Noregi, 2,2 í Svíþjóð og 2,5 í Tékklandi og Svartfjallalandi. Tíðastur var ungbarnadauði í Aserbaídsjan, 10,9 af hverjum 1.000 lifandi fæddum yfir tímabilið 2014-2023 samkvæmt tölum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.