Samtals 22 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur víða á Vestfjörðum í síðustu viku.
Sá sem hraðast ók mældist á 138 km hraða í Ísafjarðardjúpi þar sem leyfilegur hraði er 90 km á klst. Sá fær fyrir vikið 150.000 króna sekt og 3 punkta í ökuferilsskrá. Ökumenn eru hvattir til að aka á löglegum hraða og nota fjármuni sína í eitthvað þarflegra, auk þess sem öllum má vera kunn sú hætta sem hraðakstur skapar.
Tvö umferðaróhöpp urðu á Ísafirði í vikunni en urðu þau blessunarlega án meiðsla. Í öðru tilvikinu var snjómoksturstæki ekið aftan á fólksbifreið og skemmdist bifreiðin mikið og má mildi telja að ekki fór mun verr.
Tónlistarhátíðin ,,Aldrei fór ég suður“ fór fram á Ísafirði venju samkvæmt á föstudaginn langa og laugardag, í 21. sinn. Mikill fjöldi fólk sótti hátíðina sem gekk mjög vel fyrir sig. Engin mál tengd hátíðinni sjálfri komu upp og var almennt vel staðið að framkvæmd hennar og skipulagi.
Páskarnir fóru almennt vel fram á Vestfjörðum ef frá er dregin líkamsárás sem átti sér stað í miðbæ Ísafjarðar aðfaranótt laugardagsins. Tvennt var handtekið vegna hennar og er málið til rannsóknar. Þá kom upp eitt fíkniefnamál sömu nótt.
Lögreglan á Vestfjörðum var með öflugt eftirlit fyrir og um páskana í því skyni að páskahátíðin yrði slysalaus.