Lögreglan á Vestfjörðum hefur undanfarna daga haft afskipti af 10 ökumönnum vegna hraðaksturs.
Hraðakstursbrotin hafa átt sér stað vítt og breitt um umdæmið. Sá sem hraðast ók var mældur á 146 km. hraða, þar sem hámarkshraði er 90 km. Það var í Ísafjarðardjúpi. Sá má búast við hárri sekt og ökuleyfissviptingu.
Þá voru höfð afskipti af ökumanni sem var að flytja farm sem ekki hafði verið festur nægjanlega. Mikilvægt er að tryggja umferðaröryggi vel þegar slíkur flutningur á sér stað og að hann sé vel merktur og farið sé eftir þeim reglum sem um það gilda.
Þá hefur lögreglan haft afskipti af akstri ungmenna á léttum bifhjólum og hlaupahjólum. Í öllum tilvikum hefur lögreglan gert foreldrum viðkomandi viðvart. Lögreglan minnti á dögunum á þær reglur sem gilda um notkun slíkra farartækja, sjá færslu hér á facebookinni. Allt snýst þetta um umferðaröryggi. En alvarleg slys hafa orðið í umferðinni, einmitt í tengslum við notkun á hlaupahjólum, rafmagnshjólum, léttum bifhjólum og þ.h.
Eins og áður kom fram virðast sumir ökumenn vera að auka hraðann. Minnt er á mikilvægi þess að gæta hófs í öllu og umferðarreglur er ramminn í því sambandi.
Senn líður að páskum og mun lögreglan auka eftirlit sitt í tengslum við þá daga, enda má búast við töluverðri umferð í umdæminu.