Félags- og húsnæðismálaráðherra, mælti í gær fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús.
Frumvarpið felur í sér að samþykki annarra eigenda verður ekki lengur skilyrði fyrir því að einstaklingur megi halda hund eða kött í fjölbýli, jafnvel þótt íbúðir deili sameiginlegum stigagangi.
Frumvarpinu er þannig ætlað að liðka fyrir hunda- og kattahaldi fólks, óháð efnahag og búsetu, en gildandi reglur fjöleignarhúsalaganna hafa leitt til þess að íbúar fjöleignarhúsa hafa átt minni möguleika á slíku dýrahaldi en fólk sem býr í sérbýli.
Húsfélög munu samkvæmt frumvarpinu geta sett reglur um gæludýrahald, svo lengi sem þær eru málefnalegar, eðlilegar og byggðar á jafnræði. Með þeim geta eigendur sammælst um nánara fyrirkomulag dýrahaldsins, svo sem um umgengni og afnot á einstökum hlutum sameignar. Slíkar reglur geta þó eðli máls samkvæmt ekki gengið svo langt að þær girði fyrir hunda- eða kattahald í fjölbýlishúsinu enda væri það andstætt markmiði laganna.
Áfram er gert ráð fyrir að húsfélög geti lagt bann við dýrahaldi ef dýrið veldur verulegum ama, ónæði eða truflunum og eigandi bregst ekki við áminningum húsfélagsins og ræður bót þar á. Þannig gæti til dæmis húsfélag bannað einstök tilvik dýrahalds ef ofnæmi væri á svo háu stigi að sambýli við dýrið yrði óbærilegt og ekki væri hægt að finna lausnir til að ráða bót þar á.