Laugardagur 12. apríl 2025

Könnuðu hag og líðan eldra fólks

Auglýsing

Félagsvísindastofnun hefur að beiðni félags- og húsnæðismálaráðuneytisins unnið greiningu á högum og líðan eldra fólks hér á landi. Niðurstöður greiningarinnar voru kynntar í gær.

Um net- og símakönnun var að ræða sem gerð var frá 4. nóvember til 10. desember 2024. Spurt var um almennt heilbrigði, viðhorf til heilbrigðisþjónustu á Íslandi, aðstoð í daglega lífinu, heimaþjónustu, búsetuhagi, atvinnuhag, fjárhag, félagslega virkni, tölvuvirkni og fleira. 

Helstu niðurstöður:

  • Flest eldra fólk (90%) taldi sig vera við frekar eða mjög góða andlega heilsu og töldu 69% sig við frekar eða mjög góða líkamlega heilsu. Þetta er í takt við niðurstöður fyrri ára. Margir sögðust stunda reglulega hreyfingu. Ríflega fjórðungur aðspurðra gekk til dæmis rösklega 2-3 sinnum í viku og 30% aðspurða gerði það fjórum sinnum í viku eða oftar.
  • Rúmur helmingur (59%) eldra fólks á aldrinum 67-69 ára þurfti ekki aðstoð við innkaup, matreiðslu, þrif, bankaerindi á netinu eða önnur erindi á netinu. Þessu var hins vegar öðruvísi farið í elsta aldurshópnum, 88 ára og eldri. Þar þurftu 88% aðstoð við áðurnefnd atriði. Heilt yfir var algengast að maki aðstoðaði við verkefni í daglegu lífi.
  • 15% eldra fólks var með heimaþjónustu og rúmur helmingur einstaklinga 88 ára og eldri fékk slíka þjónustu. Þá taldi mikill meirihluti þjónustuna nægjanlega. Flestir (84%) þeirra sem fengu heimaþjónustu voru ánægðir með heimaþjónustu sveitarfélagsins.
  • 59% töldu sig hafa frekar gott eða mjög gott aðgengi að þeirri heilbrigðisþjónustu sem þau þyrftu á að halda. 54% töldu þjónustu heilsugæslustöðva hins vegar hafa versnað á síðastliðnum fimm árum. Um helmingur (49%) taldi heilbrigðisþjónustu vera frekar eða mjög ódýra.
  • Þátttakendur voru spurðir hvernig þeir kæmust ferða sinna alla jafna og voru flestir (86%) sem keyrðu sitt eigið ökutæki. Í elsta aldurshópnum, 88 ára og eldri, keyrðu 37% svarenda. Þá var heilt yfir nokkuð algengt (38%) að fólk færi ferða sinna alla jafna gangandi.
  • Á meðal þeirra sem voru 67-69 ára var 38% enn starfandi, en það snarlækkaði í 14% á meðal þeirra sem voru 70-72 ára. Af þeim sem ekki voru í launaðri vinnu vildu 12% vera á vinnumarkaði. Það er nokkuð lægra en fyrri ár.
  • Ráðstöfunartekjur heimila voru að jafnaði 700 þúsund krónur á mánuði og voru rúmum 100 þúsund krónum hærri hjá körlum en konum. 17% eldra fólks hafði stundum eða oft fjárhagsáhyggjur og var það algengara á meðal þeirra sem voru yngri heldur en fólki sem komið var yfir áttrætt.
  • Þótt meirihluti (71%) eldra fólks segðist ekki vera einmana voru 12% stundum einmana og 4% frekar oft, mjög oft eða alltaf einmana. Einmanaleiki var algengari á meðal karla (87%) en kvenna (81%) og voru 33% ekkla og ekkja stundum, frekar oft, mjög oft eða alltaf einmana.
  • Meirihluti eldra fólks telur sig búa við frekar litla, mjög litla eða enga félagslega einangrun. 27% verja þó meiri tíma ein en þau vildu og 6% segjast búa við frekar mikla eða mjög mikla félagslega einangrun.
  • Flest eldra fólk (78-93%) er í símasambandi eða fær/fer í heimsókn til barna, ættingja eða vina a.m.k. einu sinni í viku, óháð aldri. Fátíðara er að þau noti internetið til að hafa samband. Mikill meiri hluti (96%) á þó tölvu eða snjalltæki og er um aukningu að ræða frá fyrri árum.
  • Þátttakendur voru spurðir hvort þeir hefðu verið beittir líkamlegu, andlegu, fjárhagslegu ofbeldi eða vanrækslu. Líkt og fyrri ár voru fáir sem svöruðu því játandi. Algengast var að eldra fólk hefði lent í andlegu ofbeldi og svöruðu 4% því játandi.
  • Rúmur helmingur (56%) taldi viðhorf til eldra fólks í samfélaginu almennt vera jákvætt og var það svipað og verið hefur síðustu ár.
Auglýsing

Auglýsing

Nýtt á BB

Auglýsing

Fleiri fréttir