Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum á fimmtudaginn að hækka fjárveitingu til endurbóta á Safnahúsinu um 4,8 m.kr.
Fyrirhugaðar framkvæmdir í barna- og unglingadeild fyrir 100 ára afmæli hússins reynast kostnaðarsamari en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun 2025, auk þess sem óljóst var hvort ákveðin verkefni ættu heima á framkvæmdum Safnahúss eða á rekstri stofnunarinnar.
Um er að ræða að byggja og mála hillur á barnadeild hússins, uppfæra lýsingu á barnadeild og málningu í unglingadeild.
Kostnaðaraukningunni er mætt með því að skera niður 4.808.787 kr. styrktarfé nefnda.
Í samþykktri fjárhagsáætlun segir um Safnahúsið að töluvert viðhald hafi verið við Safnahúsið á Ísafirði á árinu 2024 og gert er ráð fyrir áframhaldandi viðhaldi á árinu 2025. Í húsinu er töluvert af gleri sem þarf að endurnýja, um 400 gler og þar af er helmingur með móðu á milli glerja. Áætlað er að glerja fyrir 16 m.kr. á árinu 2025.