Ísafjarðarbær: veiðigjaldið getur ógnað stöðuleika byggðar

Frá Ísafjarðarhöfn á sjómannadaginn 2022. Mynd: verkvest.is.

Ísafjarðarbær segir í umsögn sinni um frumvarp ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda að sveitarfélagið sé ekki ósammála því að útgerðir greiði sanngjarnt afgjald fyrir notkun á auðlindum sjávar. Þá séu fyrirheit um stóraukna innviðauppbyggingu jákvæð. Bærinn setur þó stórt spurningamerki við þetta frumvarp.

Það sé óásættanlegt að engin gögn hafi verið lögð fram um áhrif tillögunnar á landsbyggðina né einstök sveitarfélög og umrædd breyting geti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútvegssveitarfélög sem reiða sig á greinina til atvinnu og tekjuöflunar.

„Sagan hefur sýnt að róttækar breytingar á atvinnuveginum geta haft slæm áhrif á byggðarlög á landsbyggðinni. Ísafjarðarbær telur tillöguna bera vott um skort á skilningi á mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðafestu og stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Hækkun veiðigjalda að þessu marki getur ekki aðeins haft mikil áhrif á rekstrarforsendur fyrirtækja og samspil veiða og vinnslu, heldur einnig á fjölda samfélaga vítt og breitt um landið og er Ísafjarðarbær engin undantekning þar. Sem dæmi þá er vægi sjávarútvegs í útsvarsgrunni Ísafjarðarbæjar 2024, fiskveiðar 9,1% og fiskvinnsla 11,9% byggt á gögnum Hagstofu Íslands.“

Umsögninni lýkur með þessum orðum:

„Ísafjarðarbær lítur svo á að hér sé enn annað gjald sem getur ógnað stöðugleika byggðar á landsbyggðinni, en nýlega hafa borist fréttir af því að innviðagjald á skemmtiferðaskip verði óbreytt sem hefur hlutfallslega mikil neikvæð áhrif á landsbyggðinni.“

DEILA