HVEST: sjómennirnir voru skoðaðir strax

Súsanna Björg Ástvaldsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, ber til baka frásögn í skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa, sem birt var í síðustu viku að tveir sjómenn af Sólborgu RE 27 , sem fluttir voru á sjúkrahúsið á Ísafirði að morgni 5. september 2024 hafi fengið þau svör að ekki væri hægt að taka á móti þeim fyrr en kl 8 að morgni næsta dags.

Súsanna segir að mennirnir tveir hafi verið skoðaðir strax við komu á sjúkrahúsið. Niðurstaðan hafi verið að ekki hafi verið ástæða til þess að kalla út starfsfólk til að gera myndrannsóknir á þeim og því voru þeir ekki lagðir inn.

Við þær aðstæður er það hlutverk útgerðar að sjá um gistingu mannanna, en ákveðið hafi verið til þess að aðstoða útgerðina að leyfa þeim að gista á sjúkrahúsinu og fengu þeir herbergi til þess. Sjómennirnir voru ekki skráðir inná sjúkrahúsið sem sjúklingar.

Áframhaldandi rannsókn daginn eftir leiddi í ljós að ekki var ástæða til neinnar meðferðar.

Súsanna Björg Ástvaldsdóttir er ósátt við skýrslu rannsóknarnefndarinnar. „Hún var gerð án samráðs við okkur og efni hennar ekkert rætt við okkur.“ Hún segist gera athugasemdir við skýrslu sem gerir ekki grein fyrir hlið Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á málavöxtum. „Við erum búin að bija um fund með rannsóknarnefnd sjóslysa.“

DEILA