Hvalárvirkjun: málarekstur frestast til haustsins

Landamerki Drangavíkur sem Héraðsdómur og Landsréttur dæmir rétt.

Hæstiréttur hefur frestað málflutningi í máli nokkurra eigenda Drangavíkur til haustins og fer hann fram 2. og 3. september. Samkvæmt heimildum Bæjarins besta er það vegna þess að dómarar hafa ákveðið að fara norður í Árneshrepp á vettvang.

Það sem er undir í málinu er Hvalárvirkjun. Málshöfðendur leggjast gegn virkjuninni og vilja koma í veg fyrir hana. Gera þeir kröfu til þess að jörð þeirra eigi land, sem er í eigu Engjaness og Ófeigsfjarðar, og þar með virkjunarréttindi.

Bæði Héraðsdómur og Landsréttur hafa hafnað kröfunum.

Gylfi Ólafsson, formaður stjórnar Fjórðungssambandsins vék að þessum fréttum í ræðu sinni á Fjórðungsþinginu á gær. Taldi hann þessa ákvörðum Hæstaréttar valda enn frekari töfum á virkjunaráformunum og vera sorglegt dæmi um skaðlega framgöngu fámennra hópa:

„Ein jákvæð frétt frá síðustu mánuðum, og ótengd fjármálaáætlun, er að Vesturverk og Landsnet gerðu samning um að hefja aftur undirbúning framkvæmda við Hvalárvirkjun. Landsnet er komið áleiðis í undirbúningi á línuleiðum og samningar þar að lútandi hafa verið undirritaðir og fundir haldnir. En þá kemur babb í bátinn. Nú get ég tilkynnt hér, sem ekki hefur verið sagt frá opinberlega svo ég viti til, að hæstiréttur hefur ákveðið að fresta fyrirtöku sinni á landamerkjamáli á Ófeigsfjarðarheiði fram á haust, en því máli átti að ljúka nú í apríl eftir langan aðdraganda á tveimur dómsstigum. Mínar upplýsingar benda til þess að þetta hafi beinar tafir á verkinu í för með sér, og eru sorgleg viðbót í langan lista þjóðhagslega skaðlegrar réttindagæslu einstaklinga og fámennra hópa. Drangavík er eyðijörð og hefur verið lengi.“

DEILA