Háskólasetur fær tímarit um jöklarannsóknir að gjöf

Á myndinni tekur Peter Weiss forstöðumaður á móti sannarlega veglegri tímaritagjöf úr höndum Tómasar Jóhannssonar, sérfræðings í ofanflóðahættumati.

Tómas Jóhannsson sérfræðingur í ofanflóðahættumati hjá Veðurstofu Íslands kom á dögunum vestur til Snjóflóðaseturs, og hafði meðferðis fullhlaðið skott af tímaritum fyrir bókasafn Háskólaseturs.

Tómas er í ritstjórn Jökuls, tímarits um jöklarannsóknir, en hefur árum saman verið áskrifandi af tímaritunum Journal of Glaciology og Annals of Glaciology, sem honum fannst nú vera best komið fyrir þar sem almenningur hefði aðgang að, og munu þau nú koma bæði námsmönnum hjá Háskólasetri sem og starfsmönnum í húsinu til góða.

Háskólasetur er meðlimur í Norðurslóðasamstarfsneti háskóla,  og hjá Háskólasetri eru kenndar námsleiðir eins og Climate Change and Global Sustainability og vettvangsnámskeið um loftslagsbreytingar og orkuöflun og munu nemendur í þeim greinum sérstaklega hafa áhuga á þessum tímaritum.

DEILA