Fram kemur í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar um Hafrannsóknarstofnun að gögn sem Ríkisendurskoðun aflaði við úttektina beri þess merki að stjórnendur Hafrannsóknastofnunar hafi ekki tekið mannauðsmál nægilega föstum tökum fram til ársins 2023.
Þá segir : „Stofnunin hefur ráðist í markvissar aðgerðir og standa vonir til að bætt verði úr framkvæmd mannauðsmála. Ríkisendurskoðun hvetur stofnunina áfram á þeirri vegferð og bendir á ábyrgð hennar að láta ekki undir höfuð leggjast að taka á málum sem krefjast tafarlausra aðgerða á grundvelli laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.“
Samkvæmt Stofnun ársins stóð vinnustaðarmenning Hafrannsóknastofnunar höllum fæti árin 2019 til 2023. Árið 2023 hafnaði stofnunin í 126. sæti af 141 stofnunum ríkisins sem tóku þátt í könnuninni það ár.
Í svörum Hafrannsóknarstofnunar til Ríkisendurskoðunar, sem birt eru í skýrslunni, segir að í ársbyrjun 2023 hafi framkvæmdastjórn stofnunarinnar ákveðið að greina skipulega tækifæri til úrbóta í mannauðsmálum. Greiningarvinna var unnin undir liðsinni ráðgjafarfyrirtækisins Saga Competence og ákveðið var að ráðast í svokallaða menningarvegferð undir handleiðslu fyrirtækisins. Verkefnið var kynnt starfsfólki á fundi í maí 2024 og er fyrirhugað að það standi að minnsta kosti til ársins 2025 með aðkomu allra sviða stofnunarinnar, stjórnenda og starfsmanna.
aðgerðir hafa ekki skilað árangri
Í bréfi sem sex framkvæmdastjórnarmenn í stofnuninni af átta sendu til Matvælaráðuneytisins 4. apríl 2024 segir að aðgerðir til að bæta starfsandann innan framkvæmdastjórnar hafi ekki skilað tilætluðum árangri og ekki hafi náðst að koma upp styrkri, samstíga liðsheild. „Má vera ljóst að traust á milli ákveðinna aðila innan framkvæmdastjórnar hafi verið lítið í langan tíma en ekki hefur verið farið í aðgerðir til þess að bæta úr þeirri stöðu.“
Segir í bréfinu að mannabreytingar innan framkvæmdastjórnar hafi verið talsverðar undanfarin þrjú ár þar sem alls fjórir hafi horfið á braut. Til viðbótar hafi orðið miklar mannabreytingar á þeim stoðsviðum sem starfa næst framkvæmdastjórn, eða fjármála- og mannauðssviðinum, en þar hafa fjórir aðilar látið af störfum.
Ber þessari lýsingu ekki vel saman við svör Hafrannsóknarstofnunar til Ríkisendurskoðunar. Í bréfinu til ráðuneytisins er vakin athygli ráðuneytisins á þessu máli. Aðeins tveir úr framkvæmdastjórninni undirrita ekki bréfið. Það eru forstjórinn og fjármálastjórinn.
heilbrigðar konur í veikindaleyfi
Í bréfinu til ráðuneytisins segir orðrétt: „Sá þáttur sem við teljum veigamestan, er að annars heilbrigðar konur hafa farið í veikindaleyfi undanfarið ár. Tvær þeirra eru innan framkvæmdastjórnar, þriðja starfaði sem mannauðssérfræðingur og fleiri á fjármálasviði og því allar í miklum tengslum við meðlimi framkvæmdastjórnar.“
„Við undirrituð sem sitjum öll í framkvæmdastjórn Hafrannsóknastofnunar óskum eftir því að gerð verði óháð greining á stöðu stjórnunar og samskipta innan framkvæmdastjórnar síðastliðin þrjú ár, þar með talið okkar þætti þar.“ og bréfinu lýkur með þessum orðum: „Sem hluti að slíkri úttekt óskum við að kallað verði eftir greiningu hjá Vinnuvernd á veikindum á stofnuninni en starfsmenn í lengri veikindum hafa verið sendir til trúnaðarlæknis og/eða sálfræðings eftir þörfum og því ætti að vera mögulegt að kalla eftir
nafnlausum greiningum á ástæðum aukinna veikinda.“
Í fyrrgreindri skýrslu Ríkisendurskoðunar er ekki vikið að þessu bréfi sexmenninganna nér því sem í því er. Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta hefur ráðuneytið ekkert aðhafst í málinu eftir að hafa fengið erindið né brugðist við á neinn hátt við vondri útkomu á mati starfsmanna á stofnuninni. Það eina sem hafi gerst síðan bréfið var sent er að hæft og reynslumikið fólk úr framkvæmdastjórn Hafrannsóknarstofnunar hafi látið af störfum.