Stjórn Hafnasambands Íslands ræddi á fundi sínum í lok síðasta mánaðar um áhrif nýrra laga um skatta og gjöld á hafnir landsins. Sérstaklega var rætt um áhrif innviðagjaldsins á hafnir landsins en seinustu vikur og mánuði hefur verið reynt að fá aðlögun hvað innviðagjald varðar. Hins vegar er nú ljóst að ekki verður hróflað við innviðagjaldinu og þurfa hafnir og skipafélög því að aðlaga sig að því segir í fundargerðinni.
Í bókun stjórnar um málið segir að stjórn Hafnasambands Ísland telur að ákvörðun stjórnvalda um skyndilega aukna skattlagningu í formi innviðargjalds og afnám tollfrelsis á ferðir skemmtiferðaskipa um landið komi illa niður á höfnum og ferðaþjónustu í sjávarbyggðum landsins.
Hafa beri í huga að sjávarbyggðir landsins eiga í alþjóðlegri samkeppni við aðra áfangastaði í norðanverðu Atlantshafi og mikilvægt að skattlagning taki mið af þeirri staðreynd.
fækkar skipum og lækka tekjur hafna og ferðaþjónustu
„Sterkar vísbendingar eru um að þessi ákvörðun valdi töluverðum samdrætti í komum skemmtiferðaskipa til framtíðar og samhliða því lækkun á tekjum hafna, ferðaþjónustuaðila víðsvegar um landið og jafnframt skatttekjum ríkissjóðs. Hún komi sér sérlega illa í þeim byggðalögum sem ekki njóta nálægðar við Keflavíkurflugvöll og höfuðborgina. Skorar stjórn Hafnarsambandsins á ríkisstjórn og Alþingi að endurskoða þessa skattlagningu.
Þá leggur stjórn Hafnarsambandsins til að fjármunir þeir sem innheimtir verða með innviðagjaldi verði nýttir í uppbyggingu innviða sem styðja við sjálfbærni þessa geira s.s. landtengingum og öryggisinnviðum.“