Þriðjudagur 15. apríl 2025

Háafell kaupir brunnbát

Auglýsing

Fyrr í vetur gekk Háafell frá kaupum á brunnbáti frá Chile. Um er að ræða bát sem getur flutt allt að 20 tonn af seiðum og um 75 tonn af fiski í sláturstærð. Báturinn mun auka afkastagetu Háafells til seiðaflutninga, flutnings á sláturfiski og mögulegra lúsameðhöndlana með ferskvatni. Jafnframt gefast möguleikar á bættum smitvörnum með því að minnka áhættu á því að smit berist inná eldissvæði Háafells þar sem gert er ráð fyrir að brunnbáturinn verði að uppistöðu staðsettur í Ísafjarðardjúpi.

Fyrir á Háafell brunnbátinn Papey sem reynst hefur afburða vel en er orðinn of lítil og ekki með sömu tæknilegu eiginleika og nýji báturinn. Til samanburðar er brunnurinn í Papey 180 m3 en brunnarnir í nýja brunnbátnum 650 m3 auk þess sem hægt er að loka brunnunum og hringrása sjónum með loftun og súrefnisbætingu. Einnig eru fiskteljarar og flokkarar um borð sem og ozonkerfi til sótthreinsunar.

Báturinn er notaður og er keyptur af útgerðarfyrirtækinu Friosur sem íslendingum er góðu kunnugt þar sem Grandi og síðar Brim hafa átt 20% í félaginu um árabil.

Siglingin til Íslands hófst þann sjötta apríl og er reiknað með að hún taki allt að 45 daga. Siglt er upp með vesturströnd suður Ameríku, í gegnum Panama skurðinn og er áætluð koma til Reykjavíkur seinnihluta maí mánaðar. Þar verður honum flaggað á íslenska skipaskrá og kemur vestur í kjölfarið í seiðaflutninga frá Nauteyri.

Einar Valur Kristjánsson er framkvæmdastjóri Háafells:

„Við erum statt og stöðugt að efla innviði Háafells. Við höfum verið í miklum framkvæmdum á Nauteyri til þess að vera sjálfbær með seiðaframleiðslu, síðustu ár höfum við byggt upp eigin flota af þjónustubátum og fóðurprömmum og nú fjárfestum við í skipi sem nýtist á þremur stöðum í virðiskeðjunni, allt frá seiðum, í áskorunum við laxalús og uppí sláturfisk. Á sama tíma minkum við áhættu sem skapast við umferð utanaðkomandi brunnbáta inná eldissvæðin okkar. Þetta er því framfaraskref og hlökkum við til að taka á móti nýja skipinu.“

Auglýsing

Auglýsing

Nýtt á BB

Auglýsing
Auglýsing

Fleiri fréttir