Gylfi Ólafsson: sértækar skattabreytingar koma illa niður á Vestfjörðum

Gylfi Ólafsson, flytur skýrslu stjórnar Fjórðungssambandsins. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fjórðungsþing Vestfirðinga að vori var haldið í gær á Ísafirði. Að loknum flutningi skýrslu stjórnar Fjórðungssambands Vestfjarða vék Gylfi Ólafsson formaður stjórnar nokkrum orðum að héraðspólitíska landslaginu. Hér á eftir eru þeir punktar sem hann studdist við í ræðu sinni.

2024 besta ár Vestfjarða

Árið 2024 var að mjög mörgu leyti besta ár Vestfjarða. Útflutningstekjur laxeldis hafa aldrei verið meiri en 2024. Farþegar á skemmtiferðaskipum hafa aldrei verið fleiri sýnist mér af tölum Patrekshafnar og Ísafjarðarhafna. Gestafjöldi á Dynjanda hefur aldrei verið meiri. Mannfjöldi var sá mesti í 15 ár. Afkoma fyrirtækja og sveitafélaga var almennt góð. Malbikuðum kílómetrum fjölgaði á Vestfjörðum. Og Vestri hélt sér uppi í Bestu deildinni.

En

En í upphafi vikunnar var fjármálaáætlun fyrir árin 2026–30 kynnt. Þar voru nokkur atriði sem ekki voru í besta flokknum. Gefum Gylfa Ólafssyni orðið:

Fyrsta atriðið er að gert er ráð fyrir tvöföldun veiðigjalds. Það má hafa samúð með sjónarmiðum um að almenningur eigi að njóta afraksturs fiskiauðlindarinnar og það er vel ef þær tekjur eru nýttar til góðra verka sem lýðræðislega kjörið fjárveitingarvald ákveður. Hitt er annars augljóst að staðbundin áhrif breytinganna eru líkleg til að verða töluverð, og óvissa leggst jafnan illa í fólk. Samtök sjávarútvegssveitarfélaga eru byrjuð að gera greiningar á þessu, eins og Vestfjarðastofa, og vonandi ekki langt að bíða þar til hægt er að sýna fram á hvernig aðgerð sem þessi komi til með að líta út í reynd fyrir Vestfirði. Það verður því að gera þá kröfu til stjórnvalda að sjávarplássin á Vestfjörðum með misstórar útgerðir og vinnslu verði ekki meðafli þegar veiðigjaldatrollið er dregið inn. Það er ansi súrt í broti að meðalstórar útgerðir hafni í skotlínu þessa hráskinnaleiks stórútgerða og ríkisvaldsins. Ég hef því átt samtöl við ráðherra málaflokksins sem hefur sagt mér að hlustað verði á þessi sjónarmið við áframhaldandi vinnslu málsins.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að halda of háum sérstökum skatti á skemmtiferðaskip, sem ranglega er kallaður innviðagjald þó gjaldið tengist ekki innviðum að neinu leyti. Ákvörðunin er upprunalega frá fyrri ríkisstjórn, sem setti gjaldið á allt of hátt og allt of hratt. Þetta kemur að vísu ekki beinlínis fram í fjármálaáætlun, en hefur komið fram í fréttum og er væntanlega undirliggjandi tekjuhlið áætlunarinnar. Í málflutningi okkar höfum við bent á að 8% af ferðamönnum sem koma til Íslands heimsækja Vestfirði, en af skemmtiferðaskipunum er þetta hlutfall 2/3. Sértækur skattur á skemmtiferðaskip, til viðbótar við tollalagabreytingar, kemur því mjög hart niður á Vestfjörðum. Hlutfallslega breytingin er mest í höfnum sem hafa tekið á móti færri skemmtiferðaskipunum, svo sem Bolungarvík, Patreksfirði og Flatey, en í krónum talið mest á Ísafirði.

Þetta er slæm ákvörðun þar sem fórnað er meiri hagsmunum fyrir minni. Mér er þannig til efs að reiknilíkön fjármálaráðuneytisins séu með sérstakan dálk fyrir útreikning tekjuskatta og virðisaukaskatt beintengdan við umsvif í tengslum við skemmtiskip. Það er hins vegar auðvelt að reikna beinar tekjur af innviðagjöldunum. Ég held því að excel-skjölin (og trúið mér; ég er með doktorsgráðu í excelskjölum) villi ríkinu sýn í þessu máli; litlu tekjurnar eru reiknaðar sem plús fyrir ríkið en tapið týnist.  

Í þriðja lagi eru það samgöngurnar. Þar er gert ráð fyrir myndarlegri aukningu í samgöngumál, bæði viðhald og framkvæmdir. Þessi aukning nemur um 7 m.kr. á ári og helst talan þar út tímabilið. Það munar um minna, þetta er ríflega 10% aukning.

Farsímasamband á að vera komið á alla stofnvegi á tímabili fjármálaáætlunar. Það er að vísu skref aftur á bak miðað við fyrri áætlanir um að farsímasamband væri komið á stofnvegakerfið í lok næsta árs.

Flug er ekki nefnt sérstaklega, enda textinn knappur í fjármálaáætlun. Líkt og flestir vita hefur Icelandair gefið út að fyrirtækið muni hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar árið 2026. Við hljótum því að gera ráð fyrir að almenningssamgöngur í lofti verði tryggðar með sómasamlegum hætti frá og með næsta ári. Í gær áttum við fund með fulltrúum frá Höfn í Hornafirði, Vestmannaeyjum og Húsavík og ræddum möguleg samstarf í þessu samhengi. Á öllum þessum stöðum hefur molnað undan flugsamgöngum vegna lítils fyrirsjáanleika, stuttra samninga og óhentugra flugvéla. Vestfjarðastofa hefur tekið skýra forystu í þessu máli og við munum halda áfram að finna lausnir sem ekki bara tryggja flug til Ísafjarðar, heldur að það verði af háum gæðum.

Við vonum einnig að vetrarþjónusta og viðhald vega á Vestfjörðum verði ekki útundan í þessu tilliti.

Í fjórða lagi er það hækkun fiskeldisgjaldsins. Árið 2019 náðist þokkaleg sátt um eldisgjaldið myndi hækka í sjö þrepum árin eftir upp í 3,5% af alþjóðlegu markaðsverði. Í hitteðfyrra var þetta markmið, 3,5%, hækkað í 4,3%, reynt var að hækka það í 5% en ekki náðist stuðningur við það á þingi. Í fjármálaáætlun er gerð önnur atrenna að því að hækka gjaldið í 5%. Þriðjungur þessa gjalds rennur í fiskeldissjóð, og sem slíkt er það auðvitað mjög verðmætt fyrir sveitarfélögin á svæðinu. Ég held þó, að þegar á heildina sé litið, sé betra að fá hóflegt hlutfall af eldi sem dafnar heldur en hátt hlutfall af eldi sem ekki á sér stað. Auk þess er ekki góður bragur á því þá sjaldan að reynt er að gera langtímaáætlanir um gjaldtöku, að henni sé breytt meira og minna á hverju ári.

Í fimmta lagi vil ég nefna önnur mál sem ríkisstjórnin erfir frá þeirri fyrri. Þannig verður áfram haldið með breytingar á gjaldtöku fyrir akstur á þjóðvegunum og kílómetragjald tekið upp. Það er ljóst að landshluti sem byggir útflutning og innflutning á landflutningum að miklu leyti, kemur ekki vel út úr slíkum breytingum. Jafnvel þó hafa megi skilning á því að auknar tekjur ríkissjóðs geti komið til samgöngumála, breytir þetta ekki þessum veruleika.

Og svo eru það önnur mál sem þessi ríkisstjórn erfir frá þeirri fyrri. Þannig fæst ekki séð að fjármunir séu til að byggja þau fjögur verkmenntahús sem byggja á átti kringum landið, þar af eitt á Ísafirði. Við erum enn að bíða eftir að nýtt áhættumat erfðablöndunar verði kynnt, en þar teflir um tugmilljarða hagsmuni fyrir Vestfirði og Ísland á ári hverju. Ég hef talsverðar áhyggjur af því að hér verði ekki litið til allra þriggja stoða sjálfbærni.

En gott og vel. Einar og sér kunna þessar hugmyndir í fjármálaáætlun að vera skiljanlegar. En þegar skattkerfisbreytingar sem boðaðar koma nær allar hlutfallslega illa niður á Vestfjörðum, verður maður frekar foj. Ég hef því legið í símanum síðustu daga, til viðbótar við þau samskipti sem hafa verið síðustu vikur og mánuði. Við þetta verður ekki unað. Ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis hefur endanlega valdið í þessu og þar er boltinn formlega.

DEILA