Frumvarp meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis um afnám kvótasetningar á grásleppu hefur verið birt. Verði það samþykkt mun afnámið taka gildi 1. september n.k. eða við upphaf nýs kvótaárs. Markmið frumvarpsins er að færa stjórn veiða á grásleppu í fyrra horf með vísan til þess að sú breyting sem gerð var með lögum nr. 102/2024 þjónar hvorki hagsmunum atvinnugreinarinnar né nytjastofnsins og þar með ekki hagsmunum almennings eins og segir í greinargerð með frumvarpinu.
Lagt er til að tekin verði aftur upp veiðistýring með útgáfu leyfa sem bundin eru við þá aðila sem veiðar stunduðu á tilteknu árabili. Ákvörðun um fjölda veiðidaga taki þá mið af leyfilegum heildarafla, þátttöku í veiðunum og þróun veiða á fyrstu vikum vertíðar. Frumvarpinu er ætlað að tryggja möguleika sjómanna til veiða sem stundað hafa þessar veiðar um árabil en hafa flestir ekki aflaheimildir í öðrum fisktegundum. Veiðarnar myndu því takmarkast við ákveðna stærð báta sem tryggir tilveru smærri útgerða og hinna dreifðu sjávarbyggða.
Þá segir:
„Markmið laga um stjórn fiskveiða er m.a. að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Árlega veitir Hafrannsóknastofnun ráðgjöf til stjórnvalda um leyfilegan heildarafla. Í ráðgjafarskýrslu stofnunarinnar 26. mars 2025 var ráðlagður heildarafli á árabilinu 2015–2024 alls 59.295 tonn. Á sama tímabili var heildarafli grásleppubáta 51.324 tonn og var veiðiráðgjöf því 7.971 tonni umfram veiði.
Af þessu má sjá að grásleppuveiðar hafa ekki ógnað grásleppustofninum með nokkrum hætti sé litið til vísindalegrar veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunar, enda var veiði nánast öll árin vel innan ráðgjafar stofnunarinnar. Frumvarpið fellur því vel að markmiðum um verndun og hagkvæma nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum.“