Fundur um öryggi ferðafólksá Hornströndum

Í gær komu saman á Ísafirði fjölmargir aðilar til að ræða öryggi ferðafólks sem árlega fer til Hornstranda.

Á fundinum voru rædd þau tilvik sem hafa komið upp á liðnum árum, sem sum hafa verið leyst af landvörðum og ferðaþjónustuaðilum. En sum tilvikin hafa kallað á aðkomu björgunarsveita, lögreglu, sjúkraflutninga og annarra viðbragðsaðila.

Stopult eða ekkert símasamband er víða á svæðinu. Landslagið er ekki alltaf auðvelt yfirferðar og íslensk veðrátta getur sett ferðaáætlanir úr skorðum.

Þá er ekki auðvelt fyrir viðbragðsaðila að komast inn á svæðið, ef á þarf að halda, nema sjóleiðis eða með þyrlum.

Margt var rætt á fundinum og skipst á hugmyndum að leiðum til að tryggja betur öryggi ferðafólks og hvernig brugðist verði við ef út af ber.

Fundarfólk var sammála um að allir aðilar sem að þessum verkefnum koma hafa mikinn vilja til að gera vel og er ætlunin að hópurinn muni funda tvisvar á ári, til að stilla betur saman strengina.

Það voru Náttúruverndarstofnun og lögreglan á Vestfjörðum sem stóðu fyrir fundinum.

DEILA