Laugardagur 12. apríl 2025

Fossavatnsgangan: elsta skíðagöngumót Íslands 90 ára

Auglýsing

Fossavatnsgangan á Ísafirði, elsta og stærsta skíðagöngumót Íslands, fagnar 90 ára afmæli um þessar mundir.

„Fyrsta gangan var haldin á annan í páskum árið 1935, keppendur voru sjö talsins og gengin var um 18 kílómetra leið,“ segir Kristbjörn Róbert Sigurjónsson, starfsmaður Fossavatnsgöngunnar. „Það hefur auðvitað mjög margt breyst á þessum 90 árum, fjöldi þátttakenda er nú alla jafna á bilinu 450-600 manns og gengnar eru þrjár vegalengdir í aðalkeppninni auk þess sem hliðarviðburðum hefur verið bætt við dagana fram að stóru göngunni.“

Kristbjörn, eða Bobbi, eins og hann er alltaf kallaður, segir gönguna vera hápunkt tímabilsins hjá mörgu skíðagöngufólki. „Gangan er haldin svo seint að hún markar í raun lok tímabilsins og er því á sama tíma nokkurs konar uppskeruhátíð skíðagöngufólks eftir æfingar og keppnir vetursins.“

Að sögn Bobba eru þátttakendur fjölbreyttur hópur enda eru göngur í boði fyrir allan aldur og getu.

„Í ár eru um 460 þátttakendur frá samtals 25 löndum skráðir til leiks. Þetta er góð blanda af afreks- og áhugafólki, krökkum sem æfa gönguskíði og fullorðnum trimmurum.“

Leikar hefjast með NæturFossavatninu á miðvikudaginn og halda áfram á fimmtudag þegar KrakkaFossavatnið, FjölskylduFossavatnið og Fossavatnsskautið fara fram. Á laugardaginn er svo keppt í 12,5, 25 og 50 km Fossavatnsgöngu.

Ljósmynd frá 1936 fannst

Í tengslum við afmæli göngunnar hefur ýmsum gögnum úr sögu hennar verið safnað, einkum ljósmyndum. Nú á dögunum fannst svo ljósmynd sem ekki var vitað af, og er hún dagsett árið 1936. Myndin kemur úr fórum ísfirska skíðakappans Péturs Tryggva Péturssonar (1903-1996) og sýnir níu þátttakendur í Fossavatnshlaupinu eins og það var kallað. Þeir eru við Fossavatn standandi á tréskíðum. Allt voru þetta karlar, íklæddir pokabuxum og því sem nú til dags myndi flokkast sem snyrtilegur skrifstofuklæðnaður. Sigurvegarinn varð Magnús Kristjánsson sem sigraði raunar fyrstu fjórar keppnirnar.

Hægt verður að fylgjast með úrslitum í Fossavatnsgöngunni á www.timataka.net

Auglýsing
Auglýsing

Fleiri fréttir

Auglýsing

Fleiri fréttir