Bæta á þremur tölum við í Lottó þannig að leikurinn verði framvegis spilaður með 45 kúlum í staðinn fyrir 42. Breytingartillagan hefur verið lögð fram af dómsmálaráðuneytinu í Samráðsgátt stjórnvalda að beiðni Íslenskrar getspár.
Áfram verður leikurinn spilaður þannig að reynt er að giska á fimm aðaltölur og eina bónustölu.
Eftir að breytingin tekur gildi verður ólíklegra að spilarar hreppi allar fimm tölur réttar.
Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi eru líkurnar á að fá allar fimm aðaltölurnar réttar rúmlega 1 á móti 850 þúsund.
Þegar búið er að bæta við þremur kúlum verða líkurnar hins vegar rúmlega 1 á móti 1,2 milljón.
Tölunum í Lottó hefur verið fjölgað nokkrum sinnum í gegnum tíðina en fyrst var spilað með 32 tölum þegar Lottó hófst árið 1986.
Lengst af var leikurinn spilaður með 38 tölum en síðast var þeim fjölgað árið 2022 í 42.