Fjármálaáætlun: ekkert fé í jarðgöng

Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra kynnir fjármálaáætlunina.

Ekki er gert ráð fyrir neinu fé úr ríkissjóði til þess að gera jarðgöng í fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2026 – 2030 sem kynnt var í gær. Í sérstakri umfjöllun um nýjar leiðir til fjármögnunar til að flýta samgönguframkvæmdum segir að vegna þröngrar stöðu ríkisfjármála liggi fyrir að afar takmarkað svigrúm verði til að ráðast í slíkar stórframkvæmdir á næstu árum á grundvelli beinna framlaga úr ríkissjóði samkvæmt samgönguáætlun.
Þá segir :“Ef rjúfa á þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í jarðgangagerð hér á landi, eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, er því mikilvægt að leita nýrra leiða til að fjármögnunar sem einnig gætu nýst til að flýta öðrum mikilvægum samgönguverkefnum.“

Til greina komi að fylgja fyrirmynd nágrannalandanna sem sum hafa stofnað sérstakt innviðafélag eða ríkisaðila sem sér um fjármögnun stærri samgönguframkvæmda, s.s. vegna jarðganga og sambærilegra flýtiframkvæmda.

Innviðafélag um samgönguframkvæmdir

Þessi hugmynd er skýrð frekar á þennan hátt:

„Slíkum aðila mætti leggja til eigið fé frá ríkinu, t.a.m. í formi fyrirliggjandi samgönguinnviða til að búa til tekjustreymi sem nýtt yrði til að ráðast í arðsamar nýframkvæmdir og uppfærslu á eldri innviðum. Mögulegt væri að veita slíkum aðila heimildir til lántöku, þar sem framtíðartekjustreymi af samgönguinnviðum yrði veðsett til að fjármagna arðbærar fjárfestingar í nýjum samgönguinnviðum en þó þannig að það valdi ekki óásættanlegri áhættu fyrir ríkissjóð. Þannig mætti t.a.m. hvetja til aukinnar aðkomu lífeyris sjóða og annarra fjárfestingarsjóða að innviðafjárfestingum.“

Boðuð er skoðun á lögum um samvinnuverkefni eða samstarfi milli ríkis, lífeyrissjóða og einkaaðila við innviðauppbyggingu. Meginmarkmiðið með samvinnuverkefnum væri að flýta fjárhagslega sjálfbærum framkvæmdum með aðkomu einkaaðila ásamt því að yfirfæra áhættu af byggingu og rekstri slíkra fjárfestinga frá ríkinu.

Ýmist myndi umferðin greiða allan kostnað við framkvæmdina eða viðhafa blandaða fjármögnunarleið með „skuggagjöldum“ frá ríkinu sem miðast við tiltekna lágmarksumferð eða fastar reiðugreiðslur til að einkaaðili sé reiðubúinn að taka þá áhættu sem felst í því að byggja og reka mannvirkið yfir tiltekinn tíma.
Væri ráðist í stofnun félags um stærri samgönguframkvæmdir væri um að ræða mikla breytingu á utanumhaldi um slíkar framkvæmdir.

Í lok umfjöllunar um samgönguframkvæmdir í fjármálaáætluninni segir að mikilvægt sé að víðtæk umræða eigi sér stað um þessar hugmyndir með samráði á vettvangi stjórnmálanna. Fram kom í máli ráðherra að vonast væri til þess að niðurstaða liggi fyrir um þessa leið fyrir lok yfirstandandi árs.

DEILA