Námskeið Fræðslumiðstöðvar í íslensku hafa aldrei verið fleiri og flest þeirra mjög vel sótt. Á síðasta ári tóku 370 nemendur þátt íslenskunámskeiðum og miðað við þátttöku á þessari önn stefnir í að þeir verði töluvert fleiri í ár.
Verkefnið Gefum íslensku séns, sem heyrir nú undir Fræðslumiðstöð Vestfjarða hefur án efa átt stóran þátt í að efla þátttöku og áhuga fólks á að læra málið og skapað aðstæður og tækifæri fyrir fólk að æfa sig í umhverfi þar sem má ruglast, byrja aftur, þiggja aðstoð og rétta öðrum hjálparhönd.
Verkefnið er farið að teygja anga sína víða og viðburðir eru nú á dagskrá á Ísafirði, Þingeyri, Flateyri, Bolungarvík, Súðavík, Hólmavík og Patreksfirði.
Gefum íslensku séns hefur verið að fjölga viðburðum og nú í apríl fór fram leiklestur á íslensku verki með leikaranum Elfari Loga Hannessyni frá Kómedíuleikhúsinu þar sem hópurinn hittist í þrjú skipti og las saman leikritið Skjaldhamra eftir Jónas Árnason.
Nýjasta viðbótin í viðburðarflóru Gefum íslensku séns er bókaklúbbur. Til stendur að lesa bókina Hildi eftir Satu Ramö og hittast síðan og ræða um bókina í tvö skipti. Þá mun rithöfundurinn sjálfur heimsækja okkur og spjalla við hópinn. En eins og margir vita er hún búsett á Ísafirði og nýverið var hér stórt og mikið lið leikara og fagfólks í þátta- og kvikmyndagerð við upptökur og vinnslu á sjónvarpsþáttum um lögreglukonuna Hildi.