„Við erum ekki komin niður úr skýjunum og höfum aldrei verið eins glöð“ sagði Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri hátíðarinnar Aldrei fór ég suður, sem var haldin á Ísafirði í 21. sinn um páskana.
Kristján sagði að gott veður og rjómablíða hafi haft mikið að segja en eins hafi allt skipulag gengið upp og framkoma gesta á hátíðinni verið eins og góður draumur. „Allar áætlanir gengu upp, mótttaka gesta, öryggisgæsla, sala á bolum o.fl upp í kostnað og öll þessi mörgu handtök sem þarf að vinna við hátíð sem þessa gengu eins og smurð vél.“ Settur var upp stór skjár utandyra svo gestir gætu betur fylgst með skemmtuninni. „Aldrei hafa verið eins margir gestir á svæðinu, bæði í skemmunni og á útivæðinu við hana“ sagði Kristján og taldi að þeir hafi verið á fjórða þúsund manns.
Kristján Freyr tók sérstaklega fram að hann væri ánægður með lögregluna og framgöngu hennar á hátíðinni. Lögreglan hafi verið mjög sýnileg og hafi auk þess blandað geði við sjálfboðaliða hátíðarinnar, drukkið kaffi með þeim og sagðis hann þakklátur lögreglunni.
Allt starf hátíðarinnar er unnið í sjálfboðavinnu, utan rokkstjórans sjálfs sem fær laun sem svarar í einn mánuð en vinnur í marga mánuði að undirbúningi og skipulagningu. Kristján sagði að síðustu ár hafi sala á bolum o.fl. skilað tekjum sem staðið hafa undir tilkostnaði, en auk þess eru allnokkur fyrirtæki sem eru bakhjarlar hátíðarinnar og gera það kleift að halda svona myndarlega bæjarhátíð. „það er frítt inn á hátíðina og hún er ekki haldin í ágóðaskyni, en við finnum að gestir vilja gjarnan láta af hendi rakna eitthvað til hátíðarinnar og gera það með því að kaupa varning til minja um hana.“
Að lokum sagði Kristján Freyr að „við viljum að gestir hátíðarinnar skemmti sér vel og það gerðist svo rækilega núna.“

Kristján Freyr rokkstjóri.

Una Torfadóttir var einn af fjölmörgum listamönnum sem kom fram á hátíðinni.
Myndir: Aníta Björk Jóhannsdóttir.