Yfir fimmtíu milljónir til frjálsra félagasamtaka

Kerlingafjöll - Ljósmynd Hugi Ólafsson

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur úthlutað rúmlega 54 milljónum króna í rekstrarstyrki til 25 frjálsra félagasamtaka sem starfa á málefnasviði ráðuneytisins á grundvelli umsókna og er það tæplega 4% heildarhækkun frá úthlutun síðasta árs. Hækkun almennra styrkja til félagssamtaka, án tillits til starfa þeirra í starfshópum, nemur 6,7%.

Markmið styrkjanna er að stuðla að opnum og frjálsum skoðanaskiptum um umhverfis- og auðlindamál og að efla almenna vitund um gildi umhverfismála. Ráðuneytið hefur veitt frjálsum félagasamtökum sem starfa að umhverfismálum rekstrarstyrki frá árinu 2000.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Frjáls félagasamtök gegna lykilhlutverki í lýðræðisþjóðfélagi. Þau halda okkur við efnið á sviði umhverfismála, þau veita stjórnvöldum mikilvægt aðhald þegar þess þarf og sinna mikilvægum verkefnum á sviði fræðslu og vitundarvakningar. Rekstrargrundvöllur þeirra verður að vera sterkur. Ég hlakka til áframhaldandi samtals og samstarfs við umhverfisverndarsamtök og önnur félagasamtök á kjörtímabilinu.“

Hæstu styrkina fengu Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands sem fengu samtals tæplega helminginn af heildar upphæðinni.

DEILA