Vikuviðtalið: Valur Richter

Með stærsta hreindýrið.

Ég heiti Valur Richter, fæddist í Reykjavik fyrir nokkrum árum, foreldrar mínir bjuggu á Suðureyri þegar ég kom undir en fluttu suður við fæðingu. Ég var alltaf sendur í sveit á sumrin,og var látin vinna fyrir vistinni og matnum, þar sem ég var mjög ofvirkur. Fór mjög snemma að vinna fyrir mér, man sérstaklega um 12 ára aldur var ég oft að vinna frá 6 á morgnana til 11 á kvöldin í sauðburði og fleirri verkum. Ég var sendur ungur á Þingeyri og átti að vera í vist hjá bróðir mömmu, Dolla í Svalvogum, en fór mjög fljótlega á sjó á Framnesinu Ís 608. Endaði með að Ég giftist á Þingeyri og eignaðist 2 stráka Ívar Má  og Ólaf Brynjar. Skildi svo og fluttist á Ísafjörð 1995 eftir snjóflóð á Flateyri.

Það má geta þess að ég var að vinna á þessum tima með Þórði Júlíussyni pípara á Flateyri og átti að vera á Flateyri þegar snjóflóðið var, var búinn að reyna að komast á Flateyri á jeppa og snjósleða en allt bilaði, var búinn að reyna 3 sinnum að komast en ekkert gekk. Líklega ekki verið feigur þá! En ég eins og margir aðrir á Þingeyri fórum á Flateyri reyna að hjálpa til eftir snjóflóðið. Það reyndist mjög erfitt bæði andlega og likamlega ,  ég gróf ég upp vin og vinnufélaga minn, þar sem ég hefði átt að vera bara í næsta herbergi. En erfiðast var að grafa upp ung börn , við grófum allan daginn og langt fram á kvöld ,án þess að hugsa um okkur, svo mörg ár eftir þetta var sálin og bakið í klessu og enn koma inn í hugann svipmyndir af fólki sem við grófum upp og margt fleira sem festist í hausnum á manni.

En á Ísafirði fór ég að vinna hjá Rörtækni ehf og fljótlega fór ég að spá í að reyna að læra eitthvað til að fá einhver réttindi. Það kom svo í ljós að ég sem alltaf hafði verið stimplaður sem tossi í skóla gat allt í einu lært svo ég kláraði sveinspróf í pípulögnum og húsasmíði og meistaranám í pípulögnum, meistaranám í húsasmiði, vélstjórann , rennismíð ,auk skipstjórnarréttinda og fl. minna gagnlegt. Einnig er ég meindýraeyðir og er það lika töluverður partur af starfinu. auk þess að hafa verið við refa og minkaveiðar frá árinu 1987.

Ég og Össur Össurason stofnuðum Rörás ehf um 2010 og seinna hætti Össur vegna aldurs og keypti ég þá hans hluta og hef rekið Rörás síðan. Nú starfa á bilinu 4 – 8 manns hjá Rörás ehf.

Á Ísafirði kynnist ég Teresu frá Póllandi og erum við gift í dag og á ég með henni tvær stelpur, Söndru Mariu  og Karen Rós.  Við keyptum Aðalstræti 9 (sem var  verslun Pólsins áður ) og gerðum það hús upp frá grunni og búum í því í dag.

Svo má ekki gleyma að minnast á áhugamálin, sjálfsögðu skotfimi  og veiðar bæði skotveiðar og stangveiðar og svo snjósleðar og fjórhjól, siglingar, fjallaferðir, kajak og siglingar og fl. og fl. Og svo að sjálfsögðu skotfélagið Skotís sem útheimtir mjög mikla sjálfboða vinnu.

Kannski ein smá saga í lokin. Ég fór eitt sinn fyrir mjög löngu síðan á svartfuglsveiðar á mjög litlum gúmmibát út í Djúp. Einhvers staðar utarlega í Djúpinu  í miklu logni rekst ég á nokkra háhyrninga sem komu mjög nálægt mér og voru þeir að reyna að velta bátnum hjá mér. Bardaginn við þennan sem var ágengastur endaði með því að ég skaut hann, enda sá ég að hann myndi ná að hvolfa bátnum og éta mig en við það urðu hinir eitthvað æstir og ætluðu greinilega að hefna sín og reyndu aftur og aftur að velta tuðrunni. Ég gaf allt í botn á þessari litlu tuðru og stefndi til Ísafjarðar þeir eltu mig og reyndu að komast sitt hvoru meginn við mig og króa mig af, en ég náði alltaf að beygja frá þeim og þeir voru komnir mjög nálægt mér við Hnifdalsbryggu. Ég hef sjaldan verið jafn feginn þegar ég komst loksins í land.

Og svo að lokum lifsmottóið, þar sem ég man ekki eftir að hafa gleymt neinu, verið jákvæð, þetta reddast.

DEILA