Vikuviðtalið: Sigurður Bjarki Guðbjartsson

Ég heiti Sigurður Bjarki Guðbjartsson, fæddur árið 1965 í Bolungarvík og ólst þar upp. Því hef ég og mun alltaf líta á mig sem Víkara þó meirihluta æfinnar hafi ég búið á Ísafirði. Æskuárin í Víkinni einkenndust eins og víða í öðrum sjávarbæjum af miklu frjálsræði. Það var mikill uppgangstími, mikið af framkvæmdum og nýbyggingum sem nýttust okkur krökkunum óspart til leikja þó trúlega oft í óþökk húsbyggjenda. Eða höfnin með sitt iðandi mannlíf, trillur og bátar að koma og landa, nú eða bara grípa veiðistöng og fara niður á bryggju að veiða. Þó aflinn væri einungis ófrínilegir marhnútar var það aukaatriði. Um leið og maður hafði aldur til var haldið út á vinnumarkaðinn. Fyrst í frystihúsið eins og flestir unglingar gerðu. Síðar lá leiðin í Vélsmiðju Bolungarvíkur þar sem ég kláraði námssamning og útskrifaðist sem vélvirki.

Þegar ég kynntist fyrri konu minni Bergþóru Borgasdóttur flutti ég til Ísafjarðar hvar við hófum saman búskap. Og hér er ég enn tæpum 40 árum síðar. Saman eigum við þrjú börn, Hákon Óla, Evu Karen og Guðný Ósk. Seinni kona mín er Pannipha Khotsombat frá Tælandi. Hún á einnig þrjú börn svo fjölskyldan er dágóður hópur og má segja nokkuð fjölþjóðlegur því auk Íslands og Tælands er tengdadóttir mín frá Þýskalandi og tengdasonur frá Frakklandi.

Það er ýmislegt sem ég hef tekið mér fyrir hendur í gegnum tíðina hér á Ísafirði.  Verið véla og verkstæðismaður hjá Vegagerðinni, stundað leigubílahark, rekið hjólbarðaverkstæði, unnið við framleiðslu á sáraroði hjá Kerecis. En í dag þekkja mig líklega flestir sem Bjarki í Thai Tawee. En árið 2020 keyptum við Pannipha Thai Tawee sem er tælenskur veitingastaður hér á Ísafirði. Fyrri eigendur þau Grétar og Edda höfðu náð að skapa staðnum góðan orðstír og leggjum við Pannipha okkur fram um að viðhalda honum. Reyndar gætum við þetta ekki ein og erum við með þrjár afburða manneskjur í vinnu. Enda tala ég oft um þau sem listafólkið hér á Thai Tawee. Árið 2023 var prófdómari ökuprófa hér að láta af störfum og lagði þungt að mér að sækja um. Lét ég til leiðast og var ráðinn. Hef ég séð um framkvæmd ökuprófa hér á svæðinu síðastliðið eitt og hálft ár meðfram rekstrinum á Thai Tawee.

Svona í lokin langar mig til gamans að segja frá hvað gamall kunningi minn sagði við mig fyrir ekki svo löngu síðan. Hann sagði: Þú ættir að hugsa þig vandlega um ef þú ætlar að skipta um starfsvettvang. Þú réðir þig sem snjómokstursmann hjá Vegagerðinni og strax fyrsta veturinn var brjáluð óveðurstíð með snjóflóði í Súðavík og fleira. Síðar ferð þú að reka hjólbarðaverkstæði og það kemur bankahrun og fjármálakreppa örstuttu síðar. Nú síðast kaupirðu veitingastað og tíu dögum eftir að þú tekur við staðnum kemur Covid19 til Íslands með allt sem því fylgdi. Þannig ef þú ert að spá í að skipta um starfsvettvang held ég þú ættir ekki að sækja um vinnu hjá t.d. Landsvirkjun. Það er aldrei að vita hvað gæti gerst!

DEILA