Ég heiti Guðmundur M. Kristjánsson, en flestir þekkja mig einfaldlega sem Mugga. Ég hef átt viðburðaríkt líf, bæði á sjó og í landi, og það er óhætt að segja að ég hafi komið víða við. Lengst af var ég hafnarstjóri á Ísafirði, en í dag hef ég loksins meiri tíma til að sinna því sem gleður mig mest eftir að ég fór á eftirlaun– tónlistinni. Ég syng með Karlakórnum Erni þar sem ég er núna nýskipaður formaður, spila á básúnu í Lúðrasveit Ísafjarðar og hitti félaga mína í hljómsveitinni Drumbar vikulega. En leiðin hingað var löng og full af ævintýrum.
Tónlistarhátíð sem spratt af hugmynd í góðu bjórsulli útí London en mér og syni mínum, Erni Elíasi – betur þekktum sem Mugison – datt eitt sinn í hug að halda tónlistarhátíð á Ísafirði, og ákváðum að prófa þetta einu sinni, bara til gamans. Okkur datt ekki í hug að þetta yrði að árlegum viðburði, en hér erum við, tuttugu árum síðar, með Aldrei fór ég suður enn við líði en við báðir höfum komið þessu af okkur til annarra og gott að vita að Ísafjarðarbær hefur núna tekið virkan þátt í að viðhalda þessum viðburði. Frá upphafi lögðum við áherslu á að hátíðin yrði fyrir alla – alvöru rokkhátíð alþýðunnar. Þar fær nýliði á sviði sömu athygli og þekktar hljómsveitir, og það hefur verið lykillinn að þessu öllu saman.
Ég tók við sem hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar árið 2002 eftir að hafa búið og unnið í Malasíu í þrjú ár. Ég hafði verið sjómaður frá fimmtán ára aldri, en þótt ég hefði siglt um allan heim var löngunin til að koma heim sterkari en nokkru sinni fyrr. Ísafjarðarhöfn var á þeim tíma að byggja sig upp sem viðkomustað fyrir skemmtiferðaskip, og það var mitt hlutverk að kynna höfnina fyrir erlendum skipafélögum þar sem forveri minn í starfi Hermann Skúlason heitinn ruddi brautina og tók ég við keflinu og hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar ákvað að setja meira púður í markaðssóknina sem heldur betur hefur skilað árangri og gaman að sjá hve miklu máli þetta skiptir fyrir samfélagið og styður við allskonar fyrirtæki í bænum. Ísafjarðarhöfn er nú einn helsti áfangastaður skemmtiferðaskipa á Íslandi. Ég átti góðan vin í þessu starfi, Hjalta Þórarinsson. Við kynntumst þegar ég kom aftur heim til Ísafjarðar og hann var hafnarstarfsmaður. Við urðum fljótt óaðskiljanlegir vinir og tókum okkur fyrir hendur að fara um bæinn fyrir jólin og syngja fyrir fyrirtæki. Það var hans hugmynd, og margir í bænum litu á þetta sem upphaf jólanna. Já svona getur nú lífið verið skemmtilegt.
Áður en ég settist við landfestarnar á Ísafirði, átti ég ótal ævintýri víða um heim. Ég var skipstjóri á íslenskum togurum, en tók síðan þátt í þróunarverkefnum í fiskveiðum í Grænhöfðaeyjum við Afríku. Þaðan lá leiðin til Falklandseyja, þar sem ég var svona reddari við nýtt útgerðarverkefni. Það reyndist heldur snúið – þegar reksturinn fór í þrot stóð ég skyndilega frammi fyrir æstum sjómönnum sem höfðu ekki fengið borgað. Ég þurfti lögregluvernd dögum saman til að sleppa óskaddaður frá þessu öllu saman. Ég fór líka til Argentínu og starfaði þar við fiskveiðiráðgjöf. Þar voru peningar ekki vandamál, en þeir sem stóðu að verkefninu virtust hafa hulið tengsl við valdamikla aðila og kannski ekki allt með felldu.
Lífsháskar og hættuleg augnablik Lífið á sjó er aldrei hættulaust. Ég hef legið undir skothríð í Suður-Ameríku, en hættulegasta augnablikið var líklega þegar ég var hársbreidd frá því að vera hálshöggvinn með sveðju í Malasíu. Skipstjórinn, sem var undarlegur maður og tuggði gras sér til friðþægingar, vaknaði við skruðninga og hélt að sjóræningjar væru komnir um borð. Hann tók sveðjuna sína og réðst á mig. Ég rétt náði að forða mér á síðustu sekúndu – sveðjan fór í stýrishúsið í staðinn fyrir hálsinn á mér. Ég hef líka verið einn á báti í óveðri á Biscayaflóa og þurft að treysta á bæði reynslu og heppni til að komast lífs af. Lífið í dag – tónlist, félagsskapur og fjölskylda.
Eftir þessi ævintýri er lífið nú orðið mun rólegra. Við Halldóra Magnúsdóttir konan mín tókum uppá því að byggja hús í fyrra í endanum á Hlíðarvegi á Ísafirði sem er bara mjög vel heppnað og tók ekki langan tíma. Við fluttum inn 5 mánuðum eftir að við byrjuðum.
Ég nýt þess líka að vera með fjölskyldunni við Halldóra eigum saman tíu barnabörn sem veita okkur mikla gleði. Ég hugsa stundum um allt sem ég hef lent í á ferðum mínum, og ég sé ekki eftir neinu. Ævintýrin hafa kennt mér margt, en tónlistin, félagsskapurinn og fjölskyldan eru það sem skipta mestu máli í dag.