Vikuviðtalið: Arna Lára Jónsdóttir

Ég heiti Arna Lára og er fædd á gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði þann 30. maí 1976. Foreldrar mínir eru þau Sigríður Bragadóttir og Jón Jakob Veturliðason. Ég á tvo bræður sammæðra þá Braga og Gulla, og svo tvö samfeðra systkin Jón Smára og Eddu. Ég er alin upp á Ísafirði með öllum þeim forréttindum og frelsi sem því fylgir. Foreldrar mínir voru ung þegar ég fæddist sem varð kannski til þess að ég bjó og var mikið á heimili ömmu og afa, Láru og Braga Magg. Þau eiga stóran þátt í uppeldi mínu.

Eins og önnur börn á Ísafirði fór ég að vinna snemma í fiski. Vinsælustu vinnustaðirnir voru Íshúsfélagið, Norðurtanginn og rækjuverksmiðjan. Ég fór að vinna í Íshúshúsfélaginu en þar voru bæði amma og mamma að vinna auk flestra vinkvenna minna. Í Íshúsfélaginu lærðum við að vinna og svo var auðvitað félagsþátturinn mikilvægur og líflegur.

Ég fékkst líka við ýmislegt annað en að vinna í Íshúsinu og  vann í bíó, fiskibúðinni og Brúarnesti. Þó svo ég hafi alltaf haft gaman af vinnu þá gekk ég líka menntaveginn. Eftir skólagöngu í Grunnaskólanum á Ísafirði fór ég í Menntaskólann á Ísafirði sem hét þá Framhaldsskóli Vestfjarða og útskrifaðist þaðan vorið 1996. Þá var haldið suður á leið í Háskóla Íslands.

Þegar ég var komin suður fór ég í stjórnmálafræði eftir stutta umhugsun en hafði verið búin að skrá mig í lögfræði en fannst það ekki nógu líflegt fyrir mig. Það var virkilega góð ákvörðun.

Ég átti mitt fyrsta barn Hafdísi, á námsárunum með þáverandi sambýlismanni mínum. Hún var bara nokkra daga gömul þegar hún fékk að fara í fyrstu tímana sína í HÍ en það hlýtur að hafa haft góð áhrif á hana þar sem hún er núna í doktorsnámi í efnafræði í Oxford. Eftir stjórnmálafræðina bætti ég við mig viðskiptafræði og tók hluta af náminu í Kaupamannahöfn þar sem seinni dóttir okkar Helena fæddist. Hún er með sterkar vestfirskar rætur og er að ljúka stýrimannsnámi við Tækniskólann nú í vor.

Eftir dvölina í Kaupamannahöfn var haldið aftur heim á Ísafjörð. Mér bauðst vinna hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða þar sem ég öðlaðist fjölbreytta reynslu af atvinnu- og byggðaþróun á Vestfjörðum sem hefur gagnast mér afar vel. Aðalsteinn Óskarsson fyrrum framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélagsins var sérlega góður mentor. Lengst af starfaði ég hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands eða allt til 2020 þegar ég réði mig sem svæðisstjóri Eimskips á Vestfjörðum.        

Á Ísafirði kynntist ég núverandi sambýlismanni mínum Inga Birni Guðnasyni sem ætlaði að stoppa tímabundið fyrir vestan og er þar enn 18 árum seinna. Saman eigum við Dag 12 ára sem heldur okkur á tánum.

Pólitíkin

Ég fór snemma að hafa áhuga á pólitík þótt ég hafi ekki verið virk í stjórnmálastarfi fyrr en ég gekk í Samfylkinguna árið 2005. Ég er alin upp eftir gildum Kvennalistans og sótti marga fundi í fylgd mömmu og ég er viss um að það hafi verið mótandi og mannbætandi, og haft meiri áhrif en ég geri mér grein fyrir.  Það var svo fyrir bæjarstjórnarkosningarnar árið 2006 að Bryndís Friðgeirsdóttir fyrrum bæjarfulltrúi Ísafjarðarbæjar hvatti mig til að bjóða mig fram en hún hafði þá ákveðið að hætta og vildi styðja mig til stjórnmálaþátttöku. Ég tók slaginn og síðan þá hef ég litið á Bryndís sem pólitíska móður mína, og hún hefur stutt mig og Samfylkinguna með ráðum og dáð í gegnum tíðina. Það þurfa allir að eiga eina Bryndísi í sínu lífi.

Nú í febrúar sagði ég mig úr bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar eftir 19 ára setu. Ég hef verið mjög lánsöm með samferðafólki í pólitíkinni og mér hefur verið treyst fyrir ýmsum trúnaðarstörfum fyrir bæinn. Vænst þótti mér um að fá traust til að sinna starfi bæjarstjóra en það fylgir því mikill heiður að fá stýra heimabænum sínum og þá sérstakalega að fá taka þátt í uppbyggingunni og vextinum síðustu ár.

Meðfram sveitarstjórnarmálunum hef ég líka tekið virkan þátt í starfi Samfylkingarinnar á landsvísu. Ég hef tekið nokkrum sinnum sæti á Alþingi sem varamaður frá árinu 2009 og var svo kosin þingmaður Norðvesturkjördæmis í nóvember síðastliðnum. Um tíma gegndi ég líka starfi ritara flokksins.

Þátttaka í stjórnmálastarfi hefur verið mikið heillaskref fyrir mig þótt mörgum ói við að taka þátt í slíku starfi. Í gegnum pólitíkina hef ég kynnst fjölmörgum og bætt við mig nánum vinum sem  er ómetanlegt. Það er líka gefandi að fá að taka þátt í mótun samfélagsins þótt mörg krefjandi verkefni séu hluti af þeirri vinnu.

Það var mikill heiður fyrir mig að vera kosin á Alþingi í nóvember sem þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Það er algjör forréttindi að fá að starfa á þessum vettvangi og ég hlakka til að takast á við verkefnin og leggja mitt á vogarskálarnar.

DEILA