Aðalfundi Vesturferða sem halda átti í síðustu viku var frestað eftir að bréf barst fá einum hluthafanna þar sem gerðar voru athugasemdir við nokkur atriði. Staðfestur ársreikningur hafi ekki verið lagður fram og því ekki hægt að taka hann til afgreiðslu. Einnig var gerð athugasemd um arðgreiðslu sem stjórn félagsins leggur til.
Jón Auðunsson, framkvæmdastjóri Vesturferða staðfesti að tillaga væri um 45 m.kr. arðgreiðslu. Rekstur félagsins hafi gengið vel síðustu tvö ár og verið metár. Hagnaður af rekstri hefði verið 43,6 m.kr. i fyrra. Aðeins einu sinni áður í sögu félagsins hefði verið greiddur arður sem þá var 1 m.kr.
ólögmæt eigendaskipti að hlutafé
Í bréfinu er einnig gerð athugasemd við eigendaskipti að hlutafé í félaginu á síðasta ári og fullyrt að um ólögmæt viðskipti hafi verið að ræða. Á síðasta ári hafi hlutir gengið kaupum og sölum án þess að stjórn hafi upplýst hluthafa um það sem eigi forkaupsrétt. Segir í bréfinu að grunur sé um að einn stjórnarmanna hafi tekið þátt í sölu á hlutum til sjálfs síns og haft þá upplýsingar um stöðu félagsins sem aðrir hluthafa höfðu ekki. Skrá yfir hluthafa sé röng þar sem eigendaskipti að hlutum án þess að gæta að forkaupsrétti annarra hluthafa séu óskuldbindandi.