Vesturbyggð: snjómoksturstækin á Patreksfirði en mokstursmenn á Tálknafirði

KLeifaheiði í febrúar 2025.

Heimastjórn fyrrum Rauðasandshrepps og Barðastrandarhrepps hélt fund með íbúum á Barðaströnd í byrjun mánaðarins.

Tímasetning moksturs á Kleifaheiði var rædd á fundinum en skólabörn á Barðaströnd sækja skóla til Patreksfjarðar og fara yfir Kleifaheiði tvisvar á dag. Fundarmenn telja að tryggja þurfi að heiðin sé fær þegar skólabíllinn er á ferðinni um áttaleytið að morgni. Í fundargerð segir: „Samkvæmt því sem fram kom liggur það fyrir í síðasta lagi klukkan 6:30 hvort kalla þurfi út bíl og heiðin á, skv. áætlunum, að vera
opin frá klukkan 8 árdegis til 20:00. Fram kom að snjómoksturstækin væru á Patreksfirði en mokstursmenn á Tálknafirði og allur gangur væri á því hvort búið væri að moka leiðina þar á milli á tilhlýðilegum tíma svo tryggja megi aðgengi skólabílsins á réttum tíma.
Fram kom að jafnvel þó heiðin væri mokuð þá væri stundum óvissustig á Raknadalshlíð og því í raun ófært fyrir skólabörnin.“

börnum ekki ekið frá Bíldudal til Tálknafjarðar

Þá var rætt á fundinum um skólahald annars staðar í sveitarfélaginu og borið saman við stöðuna á Barðaströnd. Í fundargerðinni stendur:

„Umræða fór fram um byggingu nýs skóla á Bíldudal og aðstöðumun barna í þéttbýli annars vegar og dreifbýli hins vegar innan sveitarfélagsins. Enginn viðstaddra vissi til þess að umræða um það að aka bíldælskum börnum til skyldunáms í Tálknafirði hefði farið fram. Það er mun styttri leið en börn á Barðaströnd þurfa að leggja á sig dag hvern. Á leik- og grunnskólaaldri eru nú 16 börn á Barðaströnd en verða brátt 17.
Í máli viðstaddra kom fram að rök sveitarfélagsins væru helst þau að ekki væri hægt að halda uppi faglegu skólastarfi á Barðaströnd og í seinni tíð, að mygla sé í skólahúsnæðinu auk þess sem áhyggjur af félagsþroska barna í fámennum skólum hafi verið viðraðar.“

DEILA