Vesturbyggð: ekki frekari seinkun á nýjun stórskipakanti við Patrekshöfn

Teikning af kantinum þar sem hann er lauslega staðsettur.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar ræddi á fundi sínum í vikunni um áform um nýja stórskipakant við Patrekshöfn. Niðurstaða bæjarstjórnar var að leggja áherslu á að framkvæmdir við stórskipakant við Patrekshöfn seinki ekki frekar en orðið er.
Samkvæmt tillögu að samgönguáætlun árin 2024-2028 var áformað að framkvæmdir við stórskipakant við Patrekshöfn myndu hefjast á árinu 2025 og átti framkvæmdum að vera lokið á árinu 2027.

seinkunin: tækifæri kunna að tapast

Bæjarstjórnin tekur undir bókun heimastjórnar Patreksfjarðar sem segir um málið: „Sú seinkun sem þegar hefur orðið á að framkvæmdir við stórskipakant hefjist hefur í för með sér að mörg og dýrmæt tækifæri til frekari atvinnusköpunar og innviðauppbyggingar í sveitarfélaginu kunna að tapast.
Heimastjórn Patreksfjarðar leggur því ríka áherslu á að ekki verði frekari seinkun á því að framkvæmdir við stórskipakant við Patrekshöfn hefjist og að í samgönguáætlun sem lögð verður fram í haust verði tryggt fjármagn til framkvæmda strax á næsta ári.“

Undirbúningur fyrir framkvæmdir við stórskipakant við Patrekshöfn hafa staðið yfir á síðustu árum, m.a. með öldustraumsrannsóknum sem hafa verið fjármagnaðar með framlögum úr samgönguáætlun.

Um framkvæmdina segir eftirfarandi:

„Stórskipakantur við Patrekshöfn er grundvöllur þess að unnt verði til framtíðar að efla starfsemi hafnarinnar, auka umsvif, bæta þjónustu og styrkja tekjugrundvöll. Einnig er framkvæmd við stórskipakant mikilvægur liður í því að tryggja viðunandi hafnaraðstöðu til að taka á móti þeim fjölmörgu skemmtiferðaskipum sem leggja leið sína á sunnanverða Vestfirði til að bera svæðið og náttúru þess augum. Þá er staðsetning og lega Patrekshafnar þannig að stórskipakantur mun skapa mikilvæg tækifæri til strandflutninga af sunnanverðum Vestfjörðum sem og móttöku stærri fiskiskipa sem stunda veiðar fyrir utan Vestfirði, en erfitt hefur reynst fyrir stærri skip að leggjast að bryggju vegna þrengsla í skurði hafnarinnar. Patrekshöfn er hluti af grunnneti samgangna þar sem umsvif hafnarinnar hafa aukist verulega á síðustu árum og því er mikilvægt að framkvæmdir við stórskipakant njóti algjörs forgangs þegar kemur að hafnarframkvæmdum innan sveitarfélagsins.“

DEILA